Stelpurnar stóðu í Íslandsmeisturunum

Stelpurnar stóðu í Íslandsmeisturunum

Annað árið í röð urðu stelpurnar okkar að sætta sig við að falla úr leik fyrir Íslandsmeisturum Gróttu í fjórðungsúrslitum Olís-deildarinnar í handbolta. Stelpurnar hafa þar með lokið leik á tímabilinu en þær hafa aldrei náð betri árangri og liðið svo sannarlega á réttri leið.

Fyrri leikurinn í Seltjarnarnesi tapaðist með tíu marka mun 27-17 þar sem Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst með 5 mörk, Steinunn Hansdóttir skoraði 4, Carmen Palamariu 3, Perla Ruth Albertsdóttir 2 og þær Adina Ghidoarca, Kristrún Steinþórsdóttir og Elena Elísabet Birgisdóttir skoruðu 1 mark. Áslaug Ýr Bragadóttir og Katrín Ósk Magnúsdóttir vörðu fjögur skot hvor.

Nánari umfjöllun um fyrri leikinn er á vef Sunnlenska.is.

Seinni leikurinn var mun meira spennandi en svo fór að lokum að Grótta fagnaði naumum sigri 21-23 eftir að staðan var jöfn í hálfleik 9-9. Hrafnhildur Hanna var markahæst með 7 mörk, Adina skoraði 6, Elena Elísabet 3, Steinunn og Perla Ruth 2 og Carmen 1. Katrín Ósk varði 10 skot í markinu.

Nánari umfjöllun um seinni leikinn er á vef Sunnlenska.is.

Að loknu Íslandsmótinu hafði Sebastian Alexandersson þjálfari liðsins þetta að segja „Almenn markmið vetrarins voru að ná betri árangri en í fyrra, minnka getubilið á milli okkar og bestu liðanna og gera atlögu að því að teljast eitt af betri liðum landsins. Stóra markmiðið var að komast í gegnum fyrstu umferð úrslitakeppninnar og ná þannig í undanúrslit á Íslandsmótinu. Liðinu var spáð áttunda sæti í deildinni af forráðamönnum annarra liða og einnig af öllum fjölmiðlum. Niðurstaðan var sú að liðið endaði í sjöunda sæti. Það er ekkert leyndarmál að við ætluðum okkur meira en við gerðum en það væri engu að síður rangt að segja að tímabilið hafi verið slakt. Niðurstaðan er viðunandi.“ Því næst bætti hann við „Það eru þarna skemmtilegar staðreyndir sem við getum horft á og sagt með fullri reisn að liðið hafi bætt sig á milli ára. Þetta er í fyrsta skipti sem liðið endar með jákvætt vinningshlutfall og markatölu í plús. Fyrir þetta tímabil hafði stærsti sigur liðsins verið átta marka sigur og oftar en ekki vorum við í basli og í jöfnum leikjum á móti liðunum í neðri hluta deildarinnar. Í vetur vann liðið sex leiki með tíu mörkum eða meira og við erum augljóslega búnar að slíta okkur frá þeim liðum sem voru jafningjar okkar fyrir einu og tveimur árum síðan. Liðið tapaði tveimur leikjum með tíu mörkum eða meira í vetur á móti fimm í fyrra þar sem stærsta tapið var 23 marka tap fyrir Gróttu. Bilið á milli okkar og bestu liðanna hefur vissulega minnkað en kannski eins mikið og við höfðum vonað. Við höfum verið að tapa þessum jafnari leikjum með 2-5 mörkum en fyrir ári síðan var þetta oftast 6-12 mörk eða meira.“ Að lokum sagði Sebastian „Það vantar bara herslumuninn og ég er sannfærður um að liðið mun ná þessu síðasta skrefi sínu á næsta ári enda gríðarlega öflugt starf unnið í kringum þetta lið sem er til fyrirmyndar í alla staði.“

Hrafnhildur Hanna á fleygiferð í leiknum á Selfossi.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE