Stig í fyrsta heimaleik tímabilsins

Stig í fyrsta heimaleik tímabilsins

Selfoss mætti KA í fyrsta heimaleik Selfoss í Olísdeild karla í Hleðsluhöllinni. Selfyssingar mega teljast lukkulegir með að ná stigi út úr leiknum. Lokatölur 24-24.

Selfyssingar byrjuðu miklu sterkari og komust fljótt í fjögurra marka forystu, 5-1 og allt stefndi í auðveldan leik hjá Selfoss. Raunin varð önnur. KA-menn tóku við sér og minnkuðu muninnn og jöfnuðu leikinn fljótlega eftir það í 9-9. Norðanmenn komust síðan yfir og staðan í hálfleik, 11-13. 

Seinni hálfleikur fór rólega af stað og KA hélt tveggja til þriggja marka forystu lengi vel. Allt stefndi í sigur KA manna þegar um átta mínútur voru eftir og KA komnir fimm mörkum yfir, 18-23. Við tóku hreint út sagt ótrúlega lokamínútur þar sem Selfoss skoruðu fjögur mörk á síðustu fjórum mínútum leiksins á meðan KA tókst ekki að koma boltanum í netið. Lokatölur 24-24.

Mörk Selfoss: Guðmundur Hólmar Helgason 7, Hergeir Grímsson 5, Alexander Már Egan 4, Ísak Gústafsson 3, Atli Ævar Ingólfsson 2, Daníel Karl Gunnarsson 1, Tryggvi Þórisson 1.

Varin skot: Vilius Rasimas 8 (31%) 

Næsti leikur hjá meistaraflokk karla er gegn Aftureldingu í Mosfellsbænum á fimmtudag kl 19.30. Það er hins vegar nóg að gera á öðrum vígsstöðum. Á morgun, laugardag, hefur Ungmennaliðið leik gegn HK í Kórnum kl 13:30. Stelpurnar hefja síðan leik á sunnudag kl 19.30 gegn HK U, einnig í Kórnum. Mætum, styðjum og gleðjumst.


Tryggvi Þórisson var öflugur í kvöld með sex brotin fríköst og sex varða bolta í vörninni.
Umf. Selfoss / ESÓ

Tags: