Stöngin út í Höllinni

Stöngin út í Höllinni

Stelpurnar okkar í þriðja flokki léku á sunnudag til úrslita gegn ÍBV í Coca Cola bikarkeppni HSÍ. Ásamt stelpunum var fjölmennt lið Selfyssinga á pöllunum sem hvatti stelpurnar áfram allan tímann.

Það voru Vestmannaeyingar sem byrjuðu leikinn betur og náðu 1-4 forystu. Þá kviknaði líf í Selfyssingum sem jöfnuðu og komust yfir 5-4 um miðjan hálfleikinn. Það var jafnt á flestum tölum það sem eftir lifði hálfleiks en ÍBV átti lokaorðið og leiddi 10-12 í hálfleik.

Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleik af krafti og jöfnuðu fljótt í 12-12. Þá tók við afar einkennilegur kafli þar sem flest skot Selfyssinga virtust fara í stöngina og út á meðan boltarnir hjá ÍBV fóru í samskeytin og inn. Staðan var skyndilega orðin 13-18 og hálfleikurinn hálfnaður. Stelpurnar okkar náðu aldrei að brúa bilið og Eyjapæjur sigldu öruggum 18-24 sigri í Landeyjahöfn.

Stelpurnar eiga mikið hrós skilið fyrir frábæran árangur í bikarnum í vetur. Því miður mættu þær ofjörlum sínum á sunnudag en það koma tímar og koma ráð hjá þessum ungu og bráðefnilegu stelpum.

Katrín Magnúsdóttir varði vel fyrir Selfyssinga eða alls níu bolta. Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst með 6 mörk, Þuríður Guðjónsdóttir skoraði 5, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 4, Helga Rún Einarsdóttir 2 og Heiða Björk Eiríksdóttir 1.

Stelpurnar taka við silfurverðlaunum sínum eftir leikinn.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Gissur Jónsson

3. fl. kvk. - Þuríður

Þuríður fagnar einu af fimm mörkum sínum í leiknum
Ljósmynd: FimmEinn.is/Björgvin Franz