Strákarnir áfram í Evrópu

Strákarnir áfram í Evrópu

Strákarnir léku um helgina tvo leiki í Tékklandi við KH ISMM Koprivnice í EHF European Cup.  Fyrri leikinn unnu Selfyssingar, 25-31, og seinni leikurinn endaði með jafntefli, 28-28.  Samanlögð úrslit því 53-59 Selfyssingum í vil.

Fyrri leikurinn fór fram á laugardag og byrjuðu Selfyssingar af miklum krafti og skoruðu fyrstu fjögur mörkin áður en Tékkarnir náðu að svara.  Þessi munur hélst á liðunum þar til Selfyssingar gerðu sig líklega til að stinga endanlega af og voru komnir með sjö marka forystu í hálfleik, 12-19.  Litlar sveiflur urðu í leiknum þó að Koprivnice hafi aðeins minnkað muninn, lokatölur 25-31.  Sex marka forysta þýddi að Selfyssingar gátu farið heldur afslappaðri inn í seinni leikinn en annars.

Seinni leikurinn var svo leikinn á sunnudag.  Fyrri hálfleikur var í nokkuð góðu jafnvægi, heimamenn með frumkvæðið stóran hluta en Selfyssingar héldu þó alltaf í við þá og staðan jöfn í hálfleik, 14-14.  Það hitnaði aðeins í kolunum í síðari hálfleik, meiri læti í áhorfendum og styttri þráðurinn á leikmönnum.  Erfiður dagur á skrifstofunni hjá dómurum leiksins.  Þrátt fyrir það var ekki mikill munur á liðunum þar til að Selfyssingar fengu þrjár brottvísanir á innan við einni mínútu.  Á þeim kafla náðu Koprivnice þriggja marka forystu, 25-28.  Þeir skoruðu hins vegar ekki fleiri mörk síðustu 10 mínútur leiksins og Selfyssingar gerðu gott jafntefli, 28-28.

 

Leikur 18. september

Mörk Selfoss: Einar Sverrisson 7, Ragnar Jóhannsson 6, Hergeir Grímsson 5/4, Atli Ævar Ingólfsson 4, Gunnar Flosi Grétarsson 3, Ísak Gústafsson 3, Alexander Már Egan 2, Richard Sæþór Sigurðsson 1.

Varin skot: Vilius Rašimas 12 (32%).

 

Leikur 19. september

Mörk Selfoss: Ragnar Jóhannssson 7, Hergeir Grímsson 7/1, Atli Ævar Ingólfsson 5, Alexander Már Egan 3, Ísak Gústafsson 2, Richard Sæþór Sigurðsson 2, Einar Sverrisson 1, Haukur Páll Hallgrímsson 1.

Varin skot: Vilius Rašimas 12 (32%), Sölvi Ólafsson 2 (100%).

 

Þar með er ljóst að Selfyssingar komast í aðra umferð í EHF European Cup.  Mótherji Selfyssinga þar verður liðið RK Jeruzalem Ormož frá Slóveníu.  Ormož er lítill fallegur bær í norðaustur hluta Slóveníu, alveg við landamæri Króatíu.


Mynd: Það var hart barist í Tékklandi og þá sér í lagi í seinni leik liðanna, Ísak Gústafsson lét það ekki stöðva sig frekar en liðsfélagar hans.
KH Koprivnice / Ivan Pilát