Strákarnir okkar lutu í gólf

Strákarnir okkar lutu í gólf

Strákarnir okkar sóttu ekki gull í greipar Framara þegar liðin mættustu í Olís-deildinni í handbolta í Framhúsinu á föstudag.

Eftir góða byrjun Selfyssinga sneru Framarar leiknum sér í vil og leiddu í hálfleik 15-12. Heimamenn juku muninn í upphafi seinni hálfleiks áður en strákarnir bitu frá sér og minnkuðu muninn í tvö mörk án þess að komast nær. Framarar unnu að lokum öruggan sigur, 31-27.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is og á vef FimmEinn.is má finna viðtal við Stefán Árnason þjálfara Selfyssinga.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Teitur Örn Einarsson skoraði 7, Einar Sverrisson 4, Hergeir Grímsson og Guðni Ingvarsson 2 og þeir Andri Már Sveinsson, Alexander Már Egan og Eyvindur Hrannar Gunnarsson skoruðu allir 1 mark. Helgi Hlynsson varði 9 skot í marki Selfoss og Grétar Ari Guðjónsson 2.

Að loknum fjórum umferðum hafa Selfyssingar fjögur stig í 5. sæti deildarinnar.

Næsti leikur er laugardaginn 1. október þegar strákarnir fá Akureyri í heimsókn í íþróttahús Vallaskóla kl. 16:00.

Elvar Örn Jónsson fór á kostum gegn Frömurum.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE