Svart og hvítt í 3. flokki

Svart og hvítt í 3. flokki

3. flokkur Selfoss lék gegn Stjörnunni á miðvikudagskvöld. Fyrri hálfleikurinn var það lang besta sem liðið hefur sýnt í vetur og leiddi liðið 21-17 í hálfleik. Síðari hálfleikurinn aftur á móti varð liðinu að falli og unnu gestirnir frá Garðarbæ sigur 28-29.

Selfoss lék við hvern sinn fingur í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn var frábær og gekk boltinn gríðarlega vel hornanna á milli. Allir tóku þátt og jókst forskot Selfyssinga allan fyrri hálfleikinn. Liðið komst mest 6 mörkum yfir 20-14 og gat komist sjö mörkum yfir þegar 2 mínútur voru eftir. Stjarnan gerði hins vegar afar vel í að laga stöðuna fyrir hálfleik, m.a. með tveimur ódýrum hraðaupphlaupsmörkum, og Selfoss einungis 21-17 yfir í hálfleik. Áttu þessar góðu lokamínútur eftir að reynast gestunum mikilvægar.

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og martröð. Erfiðlega gekk í sókninni og staðan eftir 6 mínútur í seinni hálfleik orðin jöfn 22-22. Engin smá viðsnúningur á 8 leikmínútum. Í þessari stöðu hætti liðið að leika eftir því skipulagi sem það hafði gert allan fyrri hálfleikinn. Sóknarleikurinn var mun hægari og fékk liðið mun slakari færi en áður. Selfoss skoraði einungis 4 mörk í síðari hálfleik fram í stöðuna 25-28 en þá voru sex mínútur eftir. Liðið gafst ekki upp en náði þó ekki að komast nær en 28-29 sem urðu lokatölur.

Grátleg niðurstaða því fyrir frammistöðu sína í fyrri hálfleik áttu Selfyssingar svo sannarlega meira skilið úr leiknum. Í þeim hálfleik voru þeir frábærir í sókn, vörn og hraðaupphlaupum nær allan tímann. Þetta snýst hins vegar um að halda út allan leikinn  og náðu okkar menn því ekki.

Síðuritari náði lítillega tali af Stefáni þjálfara eftir leik: „Þetta tap á eftir að sitja lengi í manni maður. Strákarnir sýndu í fyrri hálfleik hvað þeir geta í raun og veru gert. Seinni hálfleikurinn sýnir okkur svo í hverju við þurfum að vinna áfram og laga. Við höldum bara áfram.“