Svekkjandi tap í Garðabæ

Svekkjandi tap í Garðabæ

Hörkuleikur fór fram í Garðabænum í kvöld þar sem Selfyssingar heimsóttu Stjörnuna. Fyrirfram mátti búast við erfiðum leik þar sem Stjarnan sat í 3. sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Selfoss, sem var í 2. sæti með 11 stig.

Leikurinn fór ekki vel af stað hjá Selfyssingum og var Stjarnan komin í þriggja marka forystu strax á 13. mínútu. Stjarnan hafði yfirhöndina allt fram að 21. mínútu, en þá tóku Selfyssingar til sinna ráða, þeir skoruðu 4 mörk í röð og komust einu marki yfir 11-12. Stjarnan skoraði þrjú mörk fyrir hálfleik og staðan í hálfleik 14-12, Stjörnunni í vil.

Í seinni hálfleik komu Selfyssingar einbeittari til leiks og komust brátt í tveggja marka forystu, 15-17. Leikurinn var ansi jafn fram að 20. mínútu þegar Stjörnumenn skoruðu tvö mörk í röð, þá urðu Selfyssingar frekar mistækir og ekkert gekk upp síðustu mínúturnar. Þriggja marka sigur heimamanna var staðreynd, 25-22.

Þetta var svekkjandi tap hjá Selfyssingum og virtist vera sem strákarnir misstu móðinn síðustu mínúturnar og hafi gefið Stjörnunni leikinn. En þó voru margir jákvæðir punktar í leiknum, þar má nefna fína innkomu Elvars Arnar Jónssonar sem er aðeins 16 ára gamall og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

Einar Sverrisson skoraði 6 mörk í 10 skotum, þar af 2 mörk úr vítum. Hörður Másson skoraði 5 mörk í 9 skotum og Ómar Ingi með 4 mörk í 5 skotum. Aðrir markaskorarar voru Sverrir Pálsson með 3/5, Ómar Vignir 2/2, Andri Hrafn og Hrannar með 1 mark hvor.

Basti stóð sig með prýði í markinu og varði 18 skot af 43 sem gerir u.þ.b. 40% markvörslu.

Selfoss er sem stendur í 3. sæti deildarinnar með 11 stig eftir 7 leiki, rétt eins og Grótta. Afturelding er í 1. sæti með 16 stig eftir sigur á Fjölni og Stjarnan er með 12 stig í 2. sæti eftir sigurinn á Selfoss. Næsti leikur er á móti Þrótti heima föstudaginn 22. nóvember og er vonandi að sem flestir láti sjá sig á  þeim leik.

Tags: