Tap á móti deildarmeisturunum

Tap á móti deildarmeisturunum

Selfyssingar töpuðu á móti FH í gær þegar síðasta umferð Olís-deildarinnar fór fram.

Selfyssingar komu einbeittir til leiks og voru skrefinu á undan allan fyrri hálfleikinn þó lítið væri skorað í upphafi. Mest komust Selfyssingar þremur mörkum yfir í stöðunni 7-10 en FH náði að jafna fyrir leikhlé í stöðunni 12-12. Selfyssingar voru klaufar að fara ekki inn í hálfleikinn með gott forskot.

Í byrjun seinni hálfleiks náði FH að komast yfir í fyrsta skipti í leiknum. Jafnt var á flestum tölum þangað til u.þ.b korter var eftir af leiknum. Þá var staðan orðin 20-16 fyrir FH og á brattann að sækja fyrir okkar menn. Lokatölur urðu 28-22. Að öðrum ólöstuðum í liði FH þá var markvörður þeirra frábær í þessum leik, með 20 varða bolta og átti ansi stóran þátt í þessum sigri þeirra.

Í lok leiks tók FH við deildarmeistarabikarnum og óska Selfyssingar þeim innilega til hamingju með þennan verðskuldaða titil.

Markaskorun: Teitur 7 þar af 2 víti, Elvar Örn 5, Hergeir 3, Einar 2, Guðni 2 og Haukur, Rúnar og Alexander allir með eitt. Einar Ólafur varði 9 bolta, þar af eitt víti og Helgi varði 6 bolta.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Selfyssingar enda í fimmta sæti Olís-deildarinnar sem verður að teljast góður árangur hjá nýliðunum í óvenju jafnri og spennandi deild í vetur. Úrslitakeppnin hefst strax um helgina og sækja strákarnir okkar Aftureldingu, sem endaði í fjórða sæti, heim mánudaginn 10. apríl kl. 20. Liðin mætast aftur á Selfossi á miðvikudag kl. 19:30. Það lið sem fyrr vinnur tvö leiki kemst í undanúrslit Olísdeildar karla.

Teitur var markahæstur Selfyssinga í Kaplakrikanum.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE