Tap á móti Val

Tap á móti Val

Meistaraflokkur kvenna í handbolta spilaði sinn fyrsta leik eftir jólafrí nú um helgina þegar þær fengu Val í heimsókn. Fyrirfram mátti búast við jöfnum og spennandi leik sem varð raunin. Valsstelpur voru þó mun ákveðnari í að vinna og fóru yfir heiðina með bæði stigin eftir 22 – 24 sigur á okkar stelpum.

Það var greinilegt á spili beggja liða að langt frí var að baki en leikmenn virtust á köflum frekar þungir. Valur komst mest í þriggja marka forystu í fyrri hálfleik en Selfoss átti góðan kafla fyrir leikhlé og jafnaði í stöðunni 9-9 en þannig var staðan í hálfleik. Fyrstu tíu mínútur seinni hálfleiksins náði hvort lið aðeins einu sinni að koma boltanum í netið og staðan orðin 10-10 þegar 20 mínútur voru til loka leiks. Þá tók við góður kafli hjá Val sem náði aftur þriggja marka forystu og staðan þá orðin 13-16. Þetta var slæmur kafli hjá Selfoss sem missti mann út af á 43. mínútu og svo aftur á 44. mínútu og voru því tveimur leikmönnum færri á tímabili og leit þetta ekki vel út. Selfyssingar náðu þó að skora mark tveimur færri en Valsstelpur voru alltaf fljótar að svara fyrir sig. Það má segja að Selfoss hafi alltaf verið skrefinu á eftir en þær náðu að minnka muninn, undir lok leiks, í eitt mark og höfðu tækifæri til að jafna sem tókst því miður ekki og 22-24 tap því staðreynd.

Olís deild kvenna er gríðarlega jöfn og skemmtileg og skiptir hvert stig máli. Með þessu tapi fór Selfoss niður í áttunda sæti úr því sjötta og Valur er nú með níu stig eins og Selfoss í sjöunda sæti deildarinnar. Það er nóg af stigum eftir í pottinum og baráttan um að komast í úrslitakeppnina heldur áfram.

Hrafnhildur Hanna var markahæst í liði Selfoss með níu mörk, Þuríður Guðjónsdóttir skoraði 4, Kristrún Steinþórsdóttir og Carmen Palamariu skoruðu þrjú hvor, Elena Birgisdóttir, Hildur Öder Einarsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir voru allar með eitt mark. Katrín Ósk Magnúsdóttir stóð í markinu allan leikinn og varði 14 skot sem gerir 37% markvörslu.

Á mynd: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir