Tap gegn deildarmeisturunum í fyrsta leik

Tap gegn deildarmeisturunum í fyrsta leik

Selfyssingar lágu fyrir deildar- og bikarmeisturum Gróttu í fyrsta leik átta liða úrslita Olís-deildarinnar á Seltjarnarnesi í kvöld.

Jafnræði var með liðunum fyrri hluta fyrri hálfleiks en Grótta náði góðum kafla um miðbik hálfleiksins og náði fjögurra marka forystu og leiddi í hálfleik 14:10.

Munurinn jókst enn frekar í upphafi seinni hálfleiks og þegar hann var hálfnaður var Grótta komin með tíu marka forskot. Selfyssingar klóruðu í bakkann og minnkuðu forskotið í sex mörk. Lokatölur 28-22.

Hrafnhildur Hanna var markahæst Selfyssinga með 9 mörk þar af 7 úr vítum, Perla Ruth skoraði 7, Carmen 5 og Harpa Sólveig 1.

Katrín Ósk varði 8 skot og Áslaug Ýr 1 í marki Selfyssinga.

Selfyssingar eru komnir með bakið upp við vegg en næsti leik­ur verður svo á Sel­fossi á miðviku­dag­inn 8. apríl kl. 19:30.

Ef þriðja leikinn þarf fer hann fram á Seltjarnarnesi sunnudaginn 12. apríl kl. 16.