Tap gegn FH í meistarakeppni HSÍ

Tap gegn FH í meistarakeppni HSÍ

Selfoss tapaði í kvöld í framlengdum leik gegn FH í meistarakeppni HSÍ, 33-35.  Liðin áttust við í Hleðsluhöllinni í þessum leik sem jafnan markar upphaf handboltavertíðarinnar.

Leikurinn byrjaði í járnum og jafnt á öllum tölum fyrstu 17 mínúturnar.  Eftir það tóku FH-ingar frumkvæðið og náðu að auka muninn í þrjú mörk og staðan í hálfleik 12-14.

Selfyssingar mættu ákveðnari til leiks í upphafi síðari hálfleiks og eftir 7 mínútur voru þeir búnir að jafna leikinn 17-17.  Einar Baldvin var að verja vel og strákarnir að finna Atla Ævar á línunni.  Með þessari uppskrift náði Selfoss tveggja marka forystu.  FH voru ekki á þeim buxunum að kasta inn handklæðinu og náðu að jafna leikinn þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiknum og var rétt eins og í upphafi jafnt á öllum tölum.  Árni Steinn kom Selfyssingum í forystu með marki 20 sekúndum fyrir leikslok en Ásbjörn Friðriksson jafnaði úr vítakasti á lokaandartökum leiksins og því þurfti að framlengja.

FH náði frumkvæðinu strax í upphafi framlengingar og leiddi með einu marki í hálfleik hennar.  Í síðari hluta framlengingar kláraði svo Phil Döhler markmaður FH-inga leikinn og sigur FH staðreynd, 35-33.

Bikarmeistarar FH unnu því Íslandsmeistara Selfoss í meistarakeppni HSÍ og hljóta því nafnbótina meistari meistaranna.  Næst á dagskrá hjá Selfossi er fyrsti leikur í Olísdeildinni, en hann er einmitt gegn FH.  Þá mætast liðin í Kaplakrika á miðvikudaginn 11. sept. kl. 19:30 í stórleik fyrstu umferðar Olísdeildarinnar.  Leikurinn í kvöld gefur fögur fyrirheit um líflega keppni í vetur.  Stelpurnar okkar hefja svo leik í Grill 66 deildinni sunnudaginn 15. sept, nánar um það síðar.


Haukur var ógnandi að vanda, skoraði 7 mörk og átti 6 stoðsendingar.
sunnlenska.is / Guðmundur Karl