Tap gegn Stjörnunni

Tap gegn Stjörnunni

Selfoss tapaði sínum fyrsta heimaleik í Olísdeildinni í vetur þegar liðið tók á móti Stjörnunni í kvöld.

Selfoss byrjaði betur og komst í þriggja marka forystu en Stjörnumenn komust inn í leikinn og voru komnir þremur mörkum yfir í hálfleik, 12-15. Stjarnan náði síðan fimm marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en en frábær kafli Selfyssinga um miðjan hálfleikinn skilaði þeim aftur inn í leikinn og náðu þeir að jafna leikinn í 21-21 þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum. Lokakaflinn var æsispennandi og voru nokkrir sem fengu að fjúka útaf undir lok leiks. Stjarnan var yfir, 26-27, þegar sjö sekúndur voru eftir. Gestirnir misstu hins vegar boltann og fékk Selfoss tækifæri til að jafna leikinn með vítakasti þegar leiktíminn var runninn út. Markmaður Stjörnunnar varði og eins marks tap því staðreynd, 26-27.

Selfoss er áfram í öðru sæti deildarinnar með 16 stig, jafn mörg stig og Haukar sem eiga leik til góða. 

Mörk Selfoss: Elvar Örn Jónsson 8, Atli Ævar Ingólfsson 5, Árni Steinn Steinþórsson 5, Hergeir Grímsson 2, Einar Sverrisson 2, Guðni Ingvarsson 2 og Guðjón Baldur Ómarsson 2.

Varin skot: Pawel Kiepulski varði 11 skot í markinu og Sölvi Ólafsson 10 skot.

Nánar er fjallað um leikinn á Sunnlenska.is, Vísir.is og Mbl.is. Leikskýrslu má sjá hér. Strákarnir fá nú loks góða pásu og næsti leikur ekki fyrr en eftir rúma viku, mánudaginn 10. desember gegn ÍR.

____________________________________

Mynd: Elvar Örn var markahæstur með 8 mörk í kvöld.
Umf. Selfoss / JÁE