Tap gegn Stjörnunni hjá mfl.karla

Tap gegn Stjörnunni hjá mfl.karla

Selfoss sótti Stjörnuna heim í lokaleik 1.deildarinnar á föstudaginn 22. mars. Selfoss var í mikilli baráttu um 4 sætið í deildinni ásamt Gróttu, þó voru möguleikarnir litlir fyrir leikinn. Bæði þurfti Selfoss að sigra og treysta á að Fjölnir myndi vinna Gróttu.

Selfoss tók frumkvæðið strax í leiknum og með forystu 1-2 eftir 5 mínútur. Liðið var hinsvegar fljótt að missa forystuna niður og tók Stjarnan frumkvæðið 4-3. Leikurinn hélst jafn áfram næstu mínúturnar þó hafði Stjarnan forystu 6-4. Þá byrjaði Selfoss að skjóta mjög illa á mark Stjörnunar og oft varði hávörnin skot okkar manna. Þannig komst Stjarnan í 10-5 og korter liðið af leiknum. Selfoss barði sig þó inn í leikinn og hélt í við Stjörnuna. Þannig var munurinn 4 mörk 12-8 og 5 mínútur til leikhlés. Þá kom til leiks ungur markvörður að nafni Sölvi Ólafsson og var að leika sinn fyrsta mfl. leik. Innkoma hans var flott og strákurinn mikið efni. Selfoss hélt áfram að laga stöðuna sína og hálfleikstölur 15-12. Þó að vörn Selfoss og sóknin hafi ekki verið upp á marga fiska í fyrri hálfleik, þá lék Stjarnan líka illa. Þess vegna var Selfoss ennþá inn í leiknum.

Hálfleikurinn virtist fara hrikalega illa í Selfoss sem glundruðu niður möguleikunum sínum með því að skjóta ítrekað illa á mark Stjörnunar eða tapa boltanum. Þannig fékk Stjarnan ítrekuð auðvelt mörk úr hraðaupphlaupum. Þeir bættu því snemma við forskot sitt og staðan 19-13 eftir 35 mínútur. Selfoss átti engin svör við leik heimamanna og eftir 40 mínúta leik var forysta þeirra komin upp í ö mörk, 25-17. Þar með virtist Selfoss algjörlega missa trú á verkefninu og síðustu mínútur leiksins ekki til framfara. Stjarnan bætti því einungis í og þegar 5 mínútur voru eftir var staðan 31-20. Ekki náði Selfoss að laga stöðuna mikið fyrir leikslok því að Stjarnan vann öruggan 10 marka sigur 33-23. Þess má líka geta að Grótta vann Fjölni og 5 sætið því endanlega staðfest.

Liðið náði sér aldrei á strik gegn Stjörnunni, vörnin virkaði baráttulaus og sóknarleikurinn hreinlega slakur. Allt of sjaldan nær liðið að spila boltanum á milli sín og sækja besta færið. Fyrsti kostur er nánast alltaf tekinn og ítrekað var skotið illa á markvörð Stjörnunar eða í hávörnina hjá þeim. Skotkeppni liðsins hjálpaði lítið og hornamenn og línumenn fengu boltann of sjaldan. Innkoma Sölva í markinu var líklega ljósasti punkturinn í leiknum.

Veturinn hefur verið áhugaverður með miklum hæðum og lægðum. Liðið byrjaði vel fyrir utan tapið gegn Stjörnunni heima. En eftir að liðið missti Atla Kristinsson þá var leiðin ávallt niður á við. Selfoss vann alla leikina sína gegn Fjölni, Fylki og Þrótt. En hinsvegar var liðið með 9 töp, 2 sigrar og 1 jafntefli.gegn Gróttu, Víkingi, Stjörnunni og ÍBV. Þar af komu báðir sigranir þegar Atli var með liðinu. Þetta er megin ástæðan fyrir að liðið tókst ekki að tryggja sér umspil sæti, ásamt tapinu heima gegn Gróttu. Það að komast í undanúrslit í bikar gleymist líklega seint hjá leikmönnum liðsins og stuðningsmönnum. Enda líklega eini ljósu punkturinn á tímabilinu miðavið hvernig það fór. Liðið er þó staðráðið í að mæta sterkir til leiks á næsta tímabili og berjast um sæti í N1-deildinni.

Áfram Selfoss!

Tölfræði:

EinarS 7/15  2 stoðsendingar, 5 tapaðir boltar og 1 brotið fríkast
Hörður M 4/16, 5 stoðsendingar, 5 tapaðir boltar og 3 brotin fríköst
Matthías Örn  3/8, 3 stoðsendingar og 8 brotin fríköst
Hörður Gunnar  3/4 og 1 brotið fríkast
Gunnar Ingi  3/5 og 2 brotin fríköst
Sverrir P 1/1
Örn Þ 1/3, 1 stoðsending og 1 brotið fríkast
Ómar Vignir  1/1 og 3 brotin fríköst
Einar Pétur  0/2, 2 stolnir boltar og 1 brotið fríkast
Andri Már  0/2
Gústaf L 1 fiskað víti
Sigurður Már 0/1 og 1 brotið fríkast
 
Markvarslan:

Helgi 14/1 varið og 22 á sig(40%)
Sölvi 7 varin og 11 á sig(38%) og ein stoðsending