Tap í síðasta deildarleik meistaraflokks kvenna

Tap í síðasta deildarleik meistaraflokks kvenna

Stelpurnar náðu sér aldrei á strik í vörninni enda Haukastelpurnar bæði mjög góðar og vel spilandi. Það vakti þó nokkra athygli að lið Hauka stillti upp einum 5 leikmönnum sem voru á leikskýrslu liðsins í N1 deildinni daginn áður. Þar á meðal var þeirra langbesti leikmaður sem er nú reyndar hálfur Selfyssingur en hún er dóttir Sigurjóns Bjarnasonar og frænka Hrafnhildar Hönnu sem spilar með Selfossi.

Leikurinn byrjaði með látum og liðin voru svo að segja hnífjöfn allan fyrri hálfleikinn enda staðan í leikhléinu 19-18 fyrir heimaliðið. Strax í upphafi síðari hálfleiks dró smám saman í sundur með liðunum en munurinn varð aldrei meiri en lokatölurnar. 

Hanna var tekin úr umferð allan leikinn en skoraði samt 6 mörk. Thelma Sif skoraði 7 en Þuríður og Guðrún Herborg skoruðu báðar 5 mörk. Loks bættu Gerður og Hildur 3 mörkum við hvor um sig.  Markverðirnir vörðu samanlagt 12 skot og þar af 1 víti.

Þetta þýðir það að stelpurnar enda í 3. sæti deildarinnar með jafnmörg stig og UMFA og Haukar, þrátt fyrir að vera með betri markatölu innbyrðis gegn báðum liðunum. UMFA náði upp fyrir Selfoss vegna bestu innbyrðismarkatölu allra liðanna þriggja þar sem þær unnu Hauka mjög stórt í öðrum leiknum. Það breytir hins vegar engu um þá niðurstöðu að Selfoss mætir UMFA í undanúrslitum og Haukar mæta deildarmeisturum Víkings. Þótt leikurinn í gær hefði unnist þá hefðu sömu lið mæst.

Nú undirbúa stelpurnar sig bara fyrir úrslitakeppnina sem verður spiluð síðustu vikuna í mars og vonandi að þær nái einhverjum málmi um hálsinn í þeirri keppni. Það væri viðeigandi endir á góðum vetri hjá þeim.

Áfram Selfoss