Tveir sigrar hjá meistaraflokki karla

Tveir sigrar hjá meistaraflokki karla

Selfoss vann á föstudaginn síðastliðinn Stjörnuna heima 28 – 27 eftir að hafa verið undir 14 – 16 í hálfleik. Í gærkvöld gerðu svo okkar menn góða ferð til Eyja og unnu 21 – 23 eftir að hafa forustu 11 – 14 í leikhléi.

Leikurinn gegn Stjörnunni var afar erfiður enda vantar marga leikmenn í okkar lið. Til að mynda voru aðeins tveir leikfærir útispilarar til reiðu. Ívar átti góða endurkomu og hjálapði liðinu mikið en hafa verður í huga að Ívar er hornamaður sem og Gunnar Ingi sem eru að leysa af stöður útileikmanna. Selfoss vann á góðri vörn í síðari hálfleik sem og markvörslu Sverris. Þá fékk liðið mörg hornafæri sem og hraðaupphlaup.

Leikurinn gegn ÍBV var hraður og mjög spennandi. Selfoss var þó alltaf betri aðilinn og leiddi allan tímann ef frá eru skildar fyrstu mínúturnar er ÍBV komst í 2 – 0. Vörnin og markvarsla hjá Helga var til fyrirmyndar allan tímann. Selfoss missti Atla út af með rautt spjald í lok fyrri hálfleiks. Klaufalega gert hjá Atla er hann skaut í leikmann ÍBV úr fríkasti eftir að leiktíma lauk. Sérstaklega klaufalegt ef höfð er í huga að saga hans og leikmanns ÍBV nær lengra aftur. Margir hefðu því haldið að Selfoss myndi brotna við að missa Atla út en það kom ekki að sök. Matthías lék afar vel og voru menn eins og Gunnar, Ívar og Sigurður drjúgir. Guðni skoraði líka afar mikilvæg mörk. Nú er lag að halda uppteknum hætti og næstu andstæðingar Selfoss er ÍR hér heima á föstudaginn næsta kl. 19.30. Mætum öll og hvetjum liðið! Selfoss á nú raunhæfan möguleika á að komast í umspil.

Tölfræði gegn Stjörnunni:

Hörður 8, Atli 7, Ómar 4, Guðni 3, Trausti 2, Matthías 2, Gunnar og Ívar 1 hvor. Sverrir varð 17/2 og fékk á sig 18. Helgi varði 3/1 og fékk á sig 9.

Gegn ÍBV:

Matthías 10, Guðni 5, Atli 3, Ómar 2, Gunnar, Hörður og Sigurður 1 hver. Helgi varði 24/1 og stóð í markinu allan tímann.