Valur – Selfoss upphitun

Valur – Selfoss upphitun

Komið er að öðrum leik strákanna á leiktímabilinu. Að þessu sinni höldum við aftur á útivöll og förum í Valshöllina á Hlíðarenda. Leikurinn fer fram á föstudaginn klukkan 19:30.
Talsverðar breytingar hafa orðið á Valsliðinu milli tímabila en þeir misstu til að mynda Geir Guðmunds og Guðmundur Hólmar í atvinnumennsku til Frakklands og eins og við Selfyssingar vitum vel fór okkar maður Ómar Ingi til Danmerkur. Það eru því stórir póstar sem hafa horfið á braut en Valsmenn hafa einnig fengið góða leikmenn til sín. Anton Rúnarsson kom frá Þýskalandi, Atli Karl Bachmann kom frá Víkingi, Ólafur Ægir Ólafsson kom frá Fram og Josip Juric Grgic kom frá Katar.
Valsmenn byrjuðu tímabilið á því að spila við FH og áttu þar í hörkurimmu en á endanum hafði FH betur 27-25. Valsmenn voru mjög sprækir í þeim leik en þá vantaði Ými Örn Gíslason í þeirra lið og munar um það. Hann er búinn að taka út leikbann og verður því væntanlega í hóp á föstudaginn. Valur mun því væntanlega mæta með sitt sterkasta lið fyrir utan áðurnefnda Josip Juric og Ólaf Ægi þar sem þeir eru frá vegna meiðsla.
Okkar menn byrjuðu tímabilið af miklum krafti og lögðu Aftureldingu að velli að Varmá í síðustu viku. Komum við þar mörgum á óvart með frábærum leik þar sem Mosfellingar réðu ekkert við okkur í 40 mínútur. Endaði leikurinn með 7 marka sigri 32-25. Liðsheildin í þeim leik var algerlega til fyrirmyndar voru þar allir sem lögðu hönd á plóg. Markahæstur okkar manna var Elvar Örn með 9 mörk, Guðni skoraði 7, Guðjón 6, Andri Már 3, Einar, Teitur og Hergeir 2 og Hrannar setti 1. Grétar var svo frábær í markinu en hann varði 20 skot eða 44%.
Það er alveg ljóst að þessi leikur verður hörkubarátta og biðja strákarnir um ykkar stuðning í Valshöllinni á föstudaginn 16. sept klukkan 19:30. Góður stuðningur úr stúkunni skiptir öllu máli en virkilega var gaman að sjá hvað margir Selfyssingar lögðu leið sína í Mosfellsbæinn á síðasta leik. Þar áttum við stúkuna. Við þurfum að hafa það eins á föstudag.
Fyrir þá sem ekki komast hins vegar má benda á að leikurinn verður sýndur á ValurTV. Linkur kemur síðar.

ÁFRAM SELFOSS!