Júdódeild mótar afreksstefnu

Júdódeild mótar afreksstefnu

Aðalfundur Júdódeildar Umf. Selfoss var haldinn í Tíbrá 18. mars sl. og mættu á annan tug manns á fundinn.

Í skýrslu formanns kom var að öflugt starf fer fram hjá deildinni og eru flestir tímar fullmannaðir. Aðstaða í íþróttasalnum er góð, þó löglegur keppnisvöllur væri að sjálfsögðu vel þeginn. Keppendur á vegum deildarinnar fóru víða á árinu jafnt innan lands sem utan. Þá bar til tíðinda að Egill Blöndal var valinn íþróttakarl Árborgar og hefur júdómanni ekki hlotnast sá heiður fyrr. Hjá félaginu eru að vaxa upp afreksmenn sem eru í fremstu röð júdómanna á Íslandi og fól fundurinn nýkjörinni stjórn að móta sér afreksstefnu sem miðar því að styðja við afreksmenn okkar.

Í skýrslu þjálfara kom fram að æfingar hafa verið með svipuðu sniði og eru virkir iðkendur yfir 60 í þremur flokkum. Keppendur Júdódeildar Umf. Selfoss náðu tveimur Íslandsmeistaratitlum vorið 2013 auk fjölda annara titla.

Fjárhagsstaða deildarinnar er góð og var hagnaður af rekstri deildarinnar á seinasta ári. Innheimta æfingagjalda gekk vel á árinu sem má m.a. þakka hvatagreiðslum Sveitarfélagsins Árborgar.

Stjórn deildarinnar var endurkjörin utan þess að Olivera Ilic kom inn sem ritari í stað Guðmundar Tryggva Ólafsson sem eru þökkuð margra ára fórnfúst starf fyrir deildina.

Að lokum voru formanni þakkaðar frábærar veitingar á fundinum.

Fundargerð aðalfundar Júdódeildar Umf. Selfoss 2014

Nýkjörin stjórn Júdódeildar Umf. Selfoss 2014-2015.
Mynd: Umf. Selfoss/Gissur

Tags: