Þór og Egill við æfingar og keppni í Evrópu

Þór og Egill við æfingar og keppni í Evrópu

Selfyssingarnir Þór Davíðsson og Egill Blöndal tóku um helgina þátt í landsliðsverkefnum á vegum Júdósambands Íslands. Frá þessu er greint á heimasíðu Júdósambands Íslands.

Þór Davíðsson fór ásamt félögum sínum Þormóði Jónssyni og Hermanni Unnarssyni á æfingabúðir í  Mittersill í Austurríki.  Þetta eru svokallaðar OTC (Olympic Training Camp) æfingabúðir sem haldnar eru nokkrum sinnum á ári og þar koma saman allir bestu júdómenn Evrópu.

Á meðal þátttakenda í þetta skiptið var einn frægasti og besti júdómaður heims Ilias Iliadis frá Grikklandi sem keppir í -90 kg flokki. Hann varð Evrópumeistari 2013 og þriðji á Heimsmeistaramótinu 2013 auk þess sem hann varð bæði Heims- og Evrópumeistari árið 2011. Þá var þar einnig Lukas Krpalek frá Tékklandi sem keppir í -100 kg flokki og varð Evrópumeistari 2013 og í þriðja sæti á Heimsmeistaramóti 2013 og 2011. Þess má geta að Lukas Krpalek keppir á RIG (Reykjavik International Open) sem fram fer í Laugardalshöllinni laugardaginn 25. janúar 2014.

Egill Blöndal fór með félögum sínum í Juniora landsliðinu til Hollands. Hann keppti á Opna hollenska í Eindhoven og tók síðan þátt í eins dags æfingabúðum á mánudag. Opna hollenska er gríðar sterkt mót og voru keppendur 1450 frá fjölmörgum löndum bæði konur og karlar. Egill keppti í flokki U21 í -90 kg vann fyrstu viðureign en tapaði næstu og fékk uppreisn og vann þriðju viðureign en tapaði þeirri fjórðu og hafnaði því í sjöunda sæti.

Lesa nánar um Opna hollenska á heimasíðu Júdósambands Íslands.

Grímur Ívarsson, Egill Blöndal og Þór Davíðsson.
Mynd: Garðar Skaptason.