Afar sterkur útisigur í fyrsta leik 

Afar sterkur útisigur í fyrsta leik 

Lengjudeildin hófst með látum í síðustu viku þegar HK og Selfoss mættust í Kórnum í Kópavogi. Selfyssingar mættu af miklum krafti til leiks og skoruðu fyrsta mark leiksins tæplega fimm mínútuna leik. Gary Martin skoraði þá með glæsilegu skoti fyrir utan teig eftir afar vel heppnaða útfærslu af hornspyrnu. 

 

Gary var aftur á ferðinni einungis þremur mínútum síðar þegar Gonzalo Zamorano sendi boltann inn í teig þar sem Gary var búinn að staðsetja sig vel og setti boltann í netið. Staðan 0-2 eftir átta mínútna leik. Eftir það sofnuðu Selfyssingar á verðinum og fengu tvö mörk beint í andlitið á næstu þremur mínútum og HK jafnaði leikinn. Fleiri mörk ekki skoruð í fyrri hálfleik. 

 

Síðari hálfleikurinn var nokkuð bragðdaufur og fátt um fína drætti. HK hélt meira í boltann en Selfyssingar vörðust vel. Sigurmark leiksins kom á 70. mínútu þegar Gonzalo Zamorano fékk boltann við vítateig andstæðingsins og smellti honum í fjærhornið, glæsilegt mark, líkt og öll mörk Selfoss í leiknum. 

 

2-3 sigur því staðreynd á afar erfiðum útivelli. Næsti leikur liðsins er á föstudagskvöld gegn Gróttu á JÁVERK-vellinum. Grótta sigraði fyrsta leikinn sinn örugglega svo það má gera ráð fyrir hörkuleik á föstudagskvöld. 

mynd: sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss – Arnar Helgi Magnússon