Alexis Kiehl í Selfoss

Alexis Kiehl í Selfoss

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við bandaríska framherjann Alexis Kiehl og mun hún spila með félaginu í Pepsi-deild kvenna í sumar.
 
Kiehl, sem er 22 ára gömul, kemur til Selfoss úr bandaríska háskólaboltanum en hún var markahæsti leikmaður Dayton háskólans í Ohio á síðasta ári og valin leikmaður ársins hjá skólanum.
 
„Mér líst mjög vel á Alexis. Hún er búin að vera hjá okkur síðan í mars og smellur vel inn í þetta hjá okkur. Hún er kraftmikill og snjall leikmaður, með góða fótboltagreind, flink með boltann og mjög góð að klára færi,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.
 
Selfyssingar hefja leik í Pepsi-deild kvenna föstudaginn 4. maí þegar liðið heimsækir Val að Hlíðarenda.
 
 
 
Alexis Kiehl og Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, handsala samninginn. Ljósmynd/UMFS