Andleysi á Ólafsfirði

Andleysi á Ólafsfirði

Selfoss lék gegn KF á Ólafsfirði í gærkvöld. Þrátt fyrir að okkar menn hafi verið tveimur mönnum fleiri stóran hluta seinni hálfleiks voru það leikmenn KF sem fögnuðu 2-1 sigri.

Það var Juan Martinez sem kom Selfyssingum yfir á 26. mínútu en heimamenn jöfnuðu strax í kjölfarið. Í upphafi seinni hálfleiks var tveimur leikmönnum KF vikið af velli með einungis tveggja mínútna millibili. Þrátt fyrir það voru það KF menn sem skoruðu sigurmark leiksins úr vítaspyrna á 76. mínútu. Gunnar þjálfari gerði þrefalda skiptingu strax eftir markið og var jákvætt að sjá Einar Ottó koma inn á en hann er að stíga upp úr erfiðum meiðslum.

Þrátt fyrir að andleysi hafi ríkt á vellinum í gær er mikilvægt að ungu strákarnir okkar læri af reynslunni því verið er að byggja upp gott knattspyrnulið. Á þeirri vegferð þurfa menn að glíma við mótlætið og taka framförum. Strákarnir gera það í næsta leik sem er, einnig fyrir norðan, gegn KA mönnum á Akureyri laugardaginn 20. júlí.

Lesa má nánar um leikinn á vef sunnlenska.is