Chanté áfram með Selfossi

Chanté áfram með Selfossi

Markvörðurinn Chanté Sandiford hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Selfoss og mun leika með liðinu í Pepsi-deild kvenna á næsta ári.

Sandiford stóð sig vel á milli stanganna hjá Selfyssingum í sumar en liðið varð í 3. sæti deildarinnar og fór í úrslitaleik bikarkeppninnar.

„Ég er mjög spennt fyrir öðru tímabili á Selfossi. Síðasta tímabil var frábært og ég held að við getum gert enn betur næsta sumar. Ég hef aldrei verið ánægðari eða fundist ég vera meira „heima“ hjá nokkru öðru liði og ég er mjög upprifin yfir því að fá annað tækifæri til þess að spila með þessum frábæru liðsfélögum,“ sagði Sandiford í samtali við Sunnlenska.is.

Hún mun einnig sinna markvarðaþjálfun í yngri flokkum hjá félaginu.

„Það er mjög spennandi að vinna með ungu markvörðunum í klúbbinn og frábært verkefni að geta haft áhrif á ungu leikmennina til þess að þróa betri markverði fyrir félagið í framtíðinni.“

Sandiford er í Bandaríkjunum þessa dagana, en hún stefnir að því að koma aftur á Selfoss í janúar.

Chanté Sandiford spyrnir frá marki í bikarúrslitaleiknum í sumar.
Ljósmynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl