Chanté Sandiford semur við Selfoss

Chanté Sandiford semur við Selfoss

Bandaríski markvörðurinn Chanté Sherese Sandiford hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Selfoss um eitt ár og mun leika með liðinu í 1. deild kvenna á næsta ári.

Sandiford hefur leikið með Selfossliðinu undanfarin tvö ár og verið einn öflugasti markvörður Pepsi-deildarinnar. Hún er 26 ára gömul og hefur leikið 53 leiki fyrir Selfoss en áður en hún kom til Íslands lék hún með rússnesku meisturunum Zorky Krasnogorsk. Hún er einnig landliðsmarkvörður Guyana.

„Ég er mjög spennt fyrir því að skrifa undir nýjan samning við Selfoss. Selfoss hefur verið heimili mitt undanfarin tvö ár og þessi bær skiptir mig svo miklu máli,“ segir Sandiford.

„Ég veit hvað félagið er fært um að gera og hvar Selfossliðið á skilið að vera. Ég vil hjálpa liðinu að komast aftur í Pepsi-deildina og ég veit að það er markmiðið hjá öllum í félaginu. Ég hlakka mikið til að mæta aftur og hjálpa félaginu að takast á við þetta verkefni. Ég er með Selfosshjarta,“ segir Sandiford ennfremur.

Sandiford er í Bandaríkjunum þessa dagana en kemur aftur heim á Selfoss í janúar.

Ljósmynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl