Fjöldi verkefna hjá landsliðsmönnum Selfoss

Fjöldi verkefna hjá landsliðsmönnum Selfoss

Þrátt fyrir að tímabili knattspyrnumanna sé lokið er nóg um að vera hjá landsliðsmönnum okkar.

Karítas Tómasdóttir var með U19 liðinu í undankeppni EM en leikið var í Búlgaríu. Liðið vann tvo fyrstu leiki sína í riðlinum, gegn heimamönnum og Slóvakíu, örugglega 5-0. Karitas kom inn á sem varamaður gegn Slóvakíu. Lokaleikur mótsins fór 0-3 gegn Frökkum en bæði lið voru fyrir leikinn örugg með sæti í milliriðlum. Karitas kom inn á rétt fyrir hálfleik en þá höfðu Frakkar þegar skorað öll mörk leiksins. Guðrún Arnardóttir, fyrrum leikmaður Selfoss, var í byrjunarliðinu alla leikina.

Þá var Bergrós Ásgeirsdóttir valin í U17 landsliðið sem fór til Rúmeníu og lék í milliriðlum EM, dagana 30. september til 5. október. Mótherjar Íslendingar voru, auk heimastúlkna, Írland og Spánn. Fyrsti leikur stelpnanna var gegn heimastúlkum og vannst sigur 2-1 í leiknum. Bergrós kom inn á sem varamaður á 50 mínútu en þá voru rúmensku stelpurnar yfir. Greinilega góð skipting fyrir Ísland. Í næsta leik gegn Írlandi kom Bergrós inn á rétt eftir að Írar komust í  0-2 á 51. mínútu. Íslendingar minnkuðu munin en urðu að sætta sig við 1-2 tap. Í lokaleiknum gegn Spáni sem tapaðist 1-3 sat hún á bekknum allan tímann.

Auk Bergrósar voru Esther Ýr Óskarsdóttir og Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir valdar í æfingahóp Úlfars Hinrikssonar landsliðsþjálfari U17 fyrir leikina. Rétt er að geta þess að Selfyssingurinn Tómas Þóroddsson var yfirfararstjóri í ferðinni.

Sindri Pálmason fór með U19 landsliðinu til Svíþjóðar um miðjan september þar sem liðið keppti þrjá æfingaleiki. Sindri kom við sögu í öllum leikjum liðsins. Hann kom inn á sem varamaður í 1-1 jafntefli gegn Slóvakíu, lék allan leikinn í 1-2 tapi gegn Noregi og var í byrjunarliðinu í 3-2 sigri gegn heimamönnum.

Að lokum var Svavar Berg Jóhannsson valinn í æfingahóp U19 landsliðsins sem æfði seinustu helgina í september en æfingarnar voru þrjá talsins. Æfingarnar voru liður í undirbúningi fyrir undankeppni EM en riðill Íslands verður leikinn í Belgíu í október.

Einnig má geta þess að atvinnumenn Selfyssinga þeir Jón Daði Böðvarsson og Guðmundur Þórarinsson eru báðir í hóp U21 landsliðsins sem mætir Frökkum í undankeppni Em á Laugardalsvelli mánudaginn 14. október.