Fótboltastelpurnar selja SÁÁ álfinn

Fótboltastelpurnar selja SÁÁ álfinn

Eins og í fyrra sjá meistaraflokkur og 2. flokkur kvenna í knattspyrnu um álfasölu SÁÁ á Selfossi. Rúmlega 30 leikmenn flokkanna sjá um söluna ásamt meistaraflokksráði og hefur Hafdís Jóna Guðmundsdóttir umsjón með sölunni.

Árleg álfasala SÁÁ hófst 6. maí og stendur fram á sunnudag. Álfasalan er stærsta fjáröflunarverkefni SÁÁ og er nú haldin í 26. skipti. Alls eru um 20% af kostnaði við alla áfengismeðferð á vegum samtakanna greidd með söfnunarfé.

Líkt og undanfarin ár er slagorð álfasölunnar í ár: Álfurinn fyrir unga fólkið. Með því er lögð áhersla á að styðja við og efla meðferðarúrræði samtakanna fyrir unga fíkla og einnig fyrir aðstandendur, þar á meðal börn alkóhólista. Frá árinu 2000 hefur SÁÁ rekið unglingadeild á sjúkrahúsinu Vogi en frá því að sjúkrahúsið var byggt hafa um 8.000 einstaklingar yngri en 25 ára lagst þar inn.  Fjölskyldudeild SÁÁ býður meðal annars sálfræðiþjónustu fyrir börn alkóhólista. Um 900 börn hafa nýtt þá þjónustu sem er að nær öllu leyti kostuð af söfnunarfé.

Álfasala SÁÁ er umfangsmesta fjáröflunarverkefni á vegum almannasamtaka sem fram fer á hverju ári hér á landi.  Frá 1990 hefur Álfurinn skilað samtökunum um 550 milljónum króna í hreinar tekjur. Um eitt þúsund manns um land allt vinna við álfasöluna næstu daga, þar á meðal fjölmargir hópar á vegum íþróttafélaga, skóla og ýmissa samtaka, sem fá sölulaun sem þau nýta til að fjármagna ferðalög eða önnur verkefni á eigin vegum og í eigin nærumhverfi.

Tags: