FRÁBÆR HEIMASIGUR – FJÖGUR MÖRK OG MARKIÐ HREINT!

FRÁBÆR HEIMASIGUR – FJÖGUR MÖRK OG MARKIÐ HREINT!

Selfoss skaust upp í annað sæti 2. deildar í gærkvöldi þegar liðið lagði Kára frá Akranesi að velli, 4-0.

Leikurinn var hraður og skemmtilegur allt frá fyrstu mínútu. Bæði lið fengu fín færi en Selfyssingar voru alltaf skrefinu á undan. Varnarmaðurinn knái, Adam Örn Sveinbjörnsson, kom Selfyssingum yfir skömmu fyrir hálfleik. Hrvoje Tokic kom boltanum á Adam Örn eftir hornspyrnu og Adam setti boltann í netið af stuttu færi.

Ingi Rafn tvöfaldaði forskot Selfyssinga tæpum fjórum mínutum síðar þegar hann skoraði glæsilegt mark með skoti fyrir utan teig, upp í skeytin fjær. Aftur var það Hrvoje Tokic sem að átti stoðsendinguna. Selfyssingar leiddu 2-0 þegar góður dómari leiksins flautaði til hálfleiks.

Selfyssingar byrjuðu síðari hálfleikinn af sama krafti og þeir enduðu þann fyrri. Kenan Turudijaskoraði þriðja mark Selfoss í upphafi síðari hálfleik með sannkölluðu draumamarki. Kenan smellhitti boltann og setti hann rétt undir þverslánna við stöngina fjær af góðum 40 metrum.

Heimamenn voru ekki hættir, ónei. Skagamaðurinn knái, Þór Llorens, bætti fjórða marki Selfoss við eftir klukkutíma leik þegar hann skoraði úr þröngu færi eftir frábæran undirbúning frá Guðmundi Tyrfingssyni.

Lokatölur á JÁVERK-vellinum, 4-0 og Selfyssingar eru komnir upp í 2. sæti á nýjan leik. Næsti leikur liðsins er gegn Fjarðabyggð úti þann 20. júlí. ÁFRAM SELFOSS!

Tags: