Gríðarleg verðmæti sjálfboðaliða

Gríðarleg verðmæti sjálfboðaliða

Óskar Sigurðsson, formaður knattspyrnudeildar Umf. Selfoss, er í ítarlegu viðtali í jólablaði Dagskrárinnar sem kom út á fimmtudag. Þar kemur m.a. fram að rekstur knattspyrnudeildar Selfoss er umfangsmikill og miðað við veltu og starfsmannafjölda er deildin eins og meðalstórt fyrirtæki í sveitarfélaginu Árborg. Það er því í mörg hörn að líta og segir Óskar gott að hafa öflugan mann á borð við Sveinbjörn Másson, framkvæmdastjóra, til að stýra starfinu með stjórninni.

Knattspyrnudeildin hefur undanfarin ár lagt áherslu á aukið samstarf með fyrirtækjum á Selfossi þar sem báðir aðilar njóta góðs af. Óskar sagði að deildin væri í dag gríðarlega sterkt afl sem gott væri að hafa með í sínu liði og að fyrirtækjaeigendur vissu það. Eins sagði hann forsvarsmenn fyrirtækja á svæðinu vita hversu mikill gæðastimpill það væri fyrir bæjarfélagið að eiga knattspyrnulið í fremstu röð og einnig hversu mikil kynning það er fyrir bæjarfélagið. Að knattspyrnustarfinu í dag koma um tvö hundruð manns í sjálfboðavinnu og eru gríðarleg verðmæti fólgin í því fyrir samfélagið. „Það er gaman er að vera hluti af þeirri heild og þeim einhug sem ríkir og skilar sér út í allt starf deildarinnar“, sagði Óskar í viðtali við Dagskrána.

Viðtalið í heild sinni má nálgast á vef Dagskrárinnar.

Tags: