Guðjónsdagurinn 2014

Guðjónsdagurinn 2014

Hinn árlegi Guðjónsdagur knattspyrnudeildarinnar verður laugardaginn 1. febrúar nk. en í ár eru 5 ár síðan vinur okkar og félagi Guðjón Ægir Sigurjónsson kvaddi þennan heim. Guðjónsdagurinn er skipulagður til að halda minningu hans á lofti um ókomna tíð.

Dagurinn hefst laugardaginn 1. febrúar 2014 kl. 9:00 um morguninn í Íþróttahúsinu Iðu með Guðjónsmótinu í knattspyrnu, sem er firma- og hópakeppni Umf. Selfoss.

Smá breytingar verða á mótinu í ár (eingöngu til hins betra). Mótið fer allt fram í Íþróttahúsinu Iðu. Leiktíminn verður 1×7 mínútur og verður spilað í riðlum þar sem efsta lið hvers riðils kemst áfram í undanúrslit. Einungis er löglegt að hafa einn leikmann sem er með skráðan leik í Íslandsmóti karla 2013 (sama hvaða deild) inn á í einu. Nánari upplýsingar varðandi reglur mótsins er hægt að fá við skráningu liðs. Einungis verður tekið á móti 20 liðum eða hópum í ár þannig að það er um að gera að skrá sig sem fyrst. Uppselt hefur verið í mótið síðustu ár og færri komist að en vilja. Skráning er hjá Sævari Þór í síma 899-0887 eða saevar@arborgir.is og Sveinbirni í síma 897-7697 eða knattspyrna@umfs.is. Þátttökugjaldið er kr. 30.000 á lið.

Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin og auk þess verða verðlaun fyrir bestu búningana og eftirtektarverðasta leikmanninn. Þetta er viðburður sem ekki má láta fram hjá sér fara, taumlaus gleði, grín og misgóðir sparksnillingar að reyna fyrir sér í knattspyrnu. Sigurvegarar síðasta árs voru Snyrtistofan Myrra og vitum við fyrir víst að þeim verður veitt veruleg keppni þetta árið.

Að móti loknu verður svo stanslaust stuð í Hvítahúsinu á Styrktarballi knattspyrnudeildarinnar. Stefnir í að hið magnaða BOLTABAND muni halda uppi fjörinu ásamt þeim Gunna Óla, Hebba og Hanna Bach fram á nótt. Það verður auglýst betur síðar.

Láttu þig ekki vanta laugardaginn 1. febrúar nk. og taktu þátt í skemmtilegum degi með okkur til minningar um frábæran félaga.