Jafntefli við Stjörnuna í fyrsta leik

Jafntefli við Stjörnuna í fyrsta leik

Selfyssingar tóku á móti Stjörnunni í fyrsta leik liðanna á Fotbolti.net mótinu, en leikið var á heimavelli Selfyssinga í Kórnum Kópavogi. Nokkra leikmenn vantaði í bæði lið, en þrátt fyrir það var leikurinn ágætur, Selfyssingar betri og margir ljósir punktar. Stjarnan komst í 0-2, en Selfyssingar jöfnuðu 2-2 í síðari hálfleik.

Byrjunarlið Selfyssinga var eftirfarandi: Elli, Siggi Eyberg, Stefán Ragnar, Kristján (Reynir Óskars), Andri Freyr, Ingó Tóta (Ingvi Óskars), Svavar Berg (Ingi Rafn), Jón Daði, Joe Tillen, Óli Kalli og Viðar Örn.

Stjarnan komst yfir eftir hálftíma leik, er skalli frá nærstöng small í netinu. Augnabliks einbeitingarleysi í varnarleik Selfyssinga og Stjarnan náði forystunni. Það sem eftir lifði hálfleiks sóttu Selfyssingar mun meira, en náðu ekki að jafna og staðan því 0-1 er dómarinn flautaði til leikhlés.

Í upphafi seinni hálfleiks skoruðu Stjörnumenn. Eftir misskilning í vörn Selfyssinga komst leikmaður Stjörnunnar einn í gegn og setti boltann óverjandi framhjá Ella í markinu. Selfyssingar fengu nokkur góð færi eftir þetta og náðu þeir Jón Daði, Óli Kalli og Viðar Örn vel saman í sókninni.

Selfyssingar minnkuðu muninn á 76. mínútu er Viðar Örn Kjartansson skoraði af miklu öryggi úr víti og minkaði muninn í 1-2. Ólafur Karl Finsen jafnaði svo metin er fimm mínútur voru eftir með góðu skoti, eftir flottan undirbúning hjá Viðari Erni.

Nokkrir leikmenn stóðu sig mjög vel í leiknum, án þess það sé verið að taka einhverja tiltekna út.

Næsti leikur Selfyssinga í Fotbolti.net mótinu er gegn ÍBV og fer hann fram kl 13.30 laugardaginn 21. janúar og að sjálfsögðu er hann í Kórnum. Reglur mótsins leyfa liðunum að leika með samningslausa leikmenn. Selfyssingar munu að öllum líkindum nýta sér það í næstu leikjum og fá á trial einhverja leikmenn. Þannig að spennandi tímar eru framundan hjá knattspyrnuáhugamönnum á Selfossi.