Jón Daði með Íslandi á EM

Jón Daði með Íslandi á EM

Jón Daði Böðvarsson er einn 23 leikmanna sem Lars Lagerback og Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfarar, völdu í landsliðshópinn sem fer á Evrópumeistaramótið í knattspyrnu í Frakklandi í sumar. Sunnlenska.is fjallaði um valið á vef sínum í dag.

Jón Daði átti sætið næsta víst eftir góða frammistöðu með landsliðinu í riðlakeppni mótsins þar sem hann kom við sögu í níu af tíu leikjum Íslands og var í byrjunarliðinu í sjö þeirra. Hann skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í fyrsta leik undankeppninnar gegn Tyrklandi á Laugardalsvellinum.

Eins og aðrir Selfyssingar hafði Viðar Örn Kjartansson gert sér vonir um að vera í hópnum en hann hefur verið fastamaður í landsliðshópnum í undankeppni Evrópumótsins. Hann var hins vegar ekki valinn en er einn af sex leikmönnum sem verða í viðbragðsstöðu ef forföll verða í hópnum. Knattspyrnusambandið þarf að tilkynna endanlegan hóp þann 31. maí.

Eins og gefur að skilja var Viðar mjög ósammála valinu.

„Þegar ég hef fengið sénsinn hef ég átt fína leiki sem og einhverja leiki sem voru ekki jafn góðir en ég hef átt mjög góðan tíma síðan ég byrjaði í atvinnumennskunni. Það gleymist stundum en ég er kominn með 50 mörk í 80 leikjum síðan ég fór út. Kannski henta ég bara ekki leikkerfinu hjá landsliðinu,“ sagði Viðar í samtali við sunnlenska.is.

„En ég óska strákunum góðs gengis á mótinu í sumar, þetta lið getur náð langt. Nú ætla ég bara að einbeita mér að því að standa mig vel með Malmö og komast lengra á mínum ferli því ég ætla klárlega að ná langt,“ bætti Viðar Örn við.

Jón Daði í leik gegn Hollendingum í undankeppni EM.
Ljósmynd: Mbl.is