Knattspyrnudeild Selfoss 60 ára í dag

Knattspyrnudeild Selfoss 60 ára í dag

Í dag eru sextíu ár liðin síðan knattspyrnudeild Umf. Selfoss var stofnuð, þann 15. desember 1955. Það hefur mikið vatn runnið í gegnum bæinn okkar síðan félagið hóf leik í svart- og rauðröndóttum AC Milan búningum árið 1955.

Ávallt hafa vaskir menn staðið í framlínu félagsins í gegnum áratugina og hefur saga félagsins og kaupstaðarins bundist órjúfanlegum böndum.

Með félagsmerkið á brjóstinu og stoltið að vopni hefur liðið heimsótt Þjórsárstúnsvöllinn, spilað innbyrðis á  Sigga Ólatúni, siglt með Krónprins Friðrik til Fuglafjarðar, fjölmennt í Grýtubakkahrepp og tekið yfir Laugardalsvöllinn. Saga félagsins er stórkostleg og hafa leikmenn liðsins jafnan borið af í glæsileika jafnt innan vallar sem utan.

Við ætlum að halda upp á 60 ára afmæli knattspyrnudeildarinnar með látlausu heimboði í Tíbrá laugardaginn 19. desember kl. 11:30. Þar mun hátíðarnefnd félagsins flytja tölu og boðið verður upp á veitingar. Allir eru velkomnir til þess að samgleðjast okkur á þessum tímamótum.

Stjórn knattspyrnudeildarinnar óskar félagsmönnum og velunnurum sínum gleðilegra jóla og þakkar fyrir liðið fótboltaár, um leið og við minnum á flugeldasöluna í Tíbrá á milli jóla og nýárs.

Framtíðin er björt, lifi knattspyrnudeild Selfoss.

Kær kveðja,
Adólf Ingvi Bragason,
formaður knattspyrnudeildar Umf. Selfoss.