Kristrún komin heim

Kristrún komin heim

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við miðjumanninn Kristrúnu Rut Antonsdóttur um að spila með félaginu í sumar.
 
Kristrún, sem var valin leikmaður ársins á Selfossi á síðasta keppnistímabili, hélt utan til Ítalíu síðasta haust og samdi við Chieti sem leikur í Serie-B. Hún spilaði 17 leiki fyrir Chieti og skoraði 5 mörk en tímabilinu á Ítalíu lauk um miðjan maí.
 
Kristrún lék sína fyrstu meistaraflokksleiki fyrir Selfoss árið 2012 en hún hefur leikið 83 leiki fyrir félagið, þar af 47 í Pepsi-deildinni.
 
„Við fögnum því mjög mikið að Kristrún hafi ákveðið að spila með okkur í sumar. Hún hefur verið lykilmaður í okkar liði og kemur núna reynslunni ríkari heim frá Ítalíu. Hún er með Selfosshjartað á réttum stað og kemur til með að styrkja okkur mikið í baráttunni í Pepsi-deildinni. Við gleðjumst yfir því að hún sé komin heim,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss.