Kveðja frá Knattspyrnudeild Umf. Selfoss

Kveðja frá Knattspyrnudeild Umf. Selfoss

Knattspyrnudeild Ungmennafélags Selfoss kveður í dag einn af sínum sterkustu félagsmönnum. Einar Jónsson var leikmaður Selfoss um langt árabil, fyrirliði, þjálfari, stjórnarmaður og leiðtogi innan vallar sem utan.
Ferill Einars sem knattspyrnumaður á Selfossi var glæsilegur. Hann er leikjahæsti leikmaður Selfoss frá upphafi með 386 leiki en ferill Einars sem leikmaður hófst árið 1974 og spilaði hann sinn síðasta leik fyrir Selfoss árið 1994.
Sem þjálfari stýrði hann meistaraflokki karla fyrst árið 1992 til bráðabirgða en síðan frá 1995 til 1997 og aftur frá miðju sumri 1998 út tímabilið 1999. Einar tók svo í þriðja sinn við liðinu árið 2006 og stýrði fram á mitt sumar 2007. Hann var einnig þjálfari meistaraflokks kvenna árið 1998, auk þess að hafa þjálfað fjölda yngri flokka. Einar sat í stjórn knattspyrnudeildarinnar sem meðstjórnandi frá 1993 til 1996.
Einar sagði sjálfur í viðtali árið 2005 að hans markmið sem ungur drengur hefði verið að spila með meistaraflokki Selfoss. Hann var andlit félagsins út á við, drífandi í starfinu og mikill leiðtogi. Á erfiðum tímum í rekstri félagsins stóð hann í stafni með leikmönnum og lagði allt í sölurnar fyrir félagið, steypti gangstéttir um bæinn, hellulagði stíga við Geysi og teiknaði og byggði fyrstu áhorfendastúkuna við völlinn árið 1993, sem oft hefur verið nefnd Einarsstúka, auk þess að miðla af reynslu sinni til allra og gefa góð ráð.
Í umsögn knattspyrnudeildar þegar Einar var valinn afreksmaður deildarinnar árið 1980 eru orð sem lýsa honum jafn vel núna 40 árum seinna. „Einar Jónsson var valinn afreksmaður deildarinnar, fyrir framúrskarandi dugnað. Árangur liðsins má þakka honum meðal annars þar sem hann var driffjöður liðsins, ávallt hvetjandi sína menn til dáða. Einar er ekki aðeins góður íþróttamaður heldur einnig afbragðs félagsmálamaður, hefur starfað mikið að unglingamálum deildarinnar, þjálfað og verið virkur í starfi. Hann hefur ávallt verið í röð fremstu knattspyrnumanna á Selfossi.“
Einar var grjótharður United maður og leiddist ekki að ræða um liðið. Hann var gagnrýninn og hafði alltaf miklar skoðanir á gengi liðsins. Það var gaman að ræða við hann um knattspyrnu og fóru ófáir tímarnir í að ræða stöðu mála.
Elín, eiginkona Einars, sem lést árið 2013, stóð ávallt þétt við bakið á honum í félagsstarfinu, ásamt börnum þeirra, en þeir Jón Þorkell og Elías Örn spiluðu með meistaraflokki Selfoss undir stjórn Einars.
Einar vann mjög óeigingjarnt starf fyrir Selfoss. Hans verður sárt saknað og við munum minnast hans um ókomna tíð fyrir störf hans, bæði sem leikmanns og félagsmanns.
Við kveðjum þennan öfluga liðsmann okkar með auðmýkt og djúpu þakklæti. Samfélagið okkar á Selfossi hefur misst mikið en mestur er þó missir fjölskyldunnar. Við sendum börnum hans, öllum ættingjum og vinum, okkar einlægustu samúðarkveðjur. Megi þau öðlast styrk til að takast á við sorg sína.
 
Blessuð sé minning okkar góða félaga, Einars Jónssonar.
 
Knattspyrnudeild Umf. Selfoss.
Tags: