Metnaðarfullt starf skilar sér í titilbaráttu

Metnaðarfullt starf skilar sér í titilbaráttu

Það hafa aldrei verið jafn margir áhorfendur á kvennaleik félagsliða á Íslandi eins og mættu á Laugardalsvöll laugardaginn 30. ágúst 2014 þegar Selfoss og Stjarnan mættust í úrslitaleik í Borgunarbikarkeppninni í knattspyrnu.

Áhorfendur voru 2.011 talsins en fyrra metið var 1.605 áhorfendur. Það voru hvorki fleiri né færri en fimm rútur frá Guðmundi Tyrfingssyni sem fluttu stuðningsmenn Selfoss til að hvetja stelpurnar á þjóðarleikvanginum. Stuðningsmenn hittust á Hótel Selfoss fyrir leik þar sem stelpurnar m.a. veittu eiginhandaráritanir.

Leikurinn byrjaði af krafti og var greinilegt að kraftur Selfyssinga á vellinum og í stúkunni kom Garðbæingum í opna skjöldu. Erna Guðjónsdóttir átti afar hættulegt skot að marki Stjörnunnar um miðjan fyrri hálfleik sem markvörður þeirra varði með tilþrifum. Annars var fátt um marktækifæri og allt stefndi í markalausan fyrri hálfleik þegar Stjarnan skoraði með marki úr einni af fáum sóknum sínum í fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik var svipað upp á teningnum. Stjarnan var meira með boltann en Selfoss beitti öguðum varnarleik. Tuttugu mínútum fyrir leikslok fjölgaði Gunnar þjálfari í sókninni sem olli því að vörnin opnaðist upp á gátt og Stjörnukonur skorðuðu þrjú mörk á seinustu tíu mínútum leiksins.

Það dró þó ekki úr stuðningsmönnum Selfyssinga sem fögnuðu liðinu innilega í leikslok þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki verið eins og best verður á kosið.

Stórkostlegt bikarævintýri að baki þetta árið og ljóst að metnaðarfullt starf Selfyssinga í kringum kvennaboltann er farið að skila sér í því að liðið berst um titla við stærstu lið landsins.

Knattspyrnudeild Selfoss þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og framkvæmd leiksins. Jafnframt þökkum við fjölmörgum stuðningsmönnum Selfoss fyrir frábæran stuðning í aðdraganda leiksins og sérstaklega á Laugardalsvelli. Leikmenn og starfsfólk eiga heiður skilið fyrir sitt framlag og þakkir fyrir að veita okkur tækifæri til að upplifa ævintýri sem Selfyssingar og Sunnlendingar allir muna lengi. Hafið kærar þakkir fyrir.


 

Hér fyrir neðan má finna umfjöllun um leikinn, viðtöl og myndasyrpur.

Afar vönduð og góðu umfjöllun um leikinn er á vef Sunnlenska.is og einnig fjallaði Fótbolti.net um leikinn og var með góða textalýsingu.

Gunnar Borgþórsson þjálfari var í viðtali eftir leik hjá Sunnlenska.is og hjá Fótbolti.net.

Guðmunda Brynja Óladóttir fyrirliði var í viðtali eftir leik hjá Fótbolti.net.

Myndasyrpur úr leiknum má finna á Sunnlenska.is, á myndasíðu KSÍ og á fésbókarsíðu Ungmennafélags Selfoss.

Fjallað var um ísfötuáskorun Selfyssinga á Sunnlenska.is.

Selfyssingar fagna góðum árangri.
Mynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl