Olísmótið fer fram um helgina

Olísmótið fer fram um helgina

Um helgina fer Meistaradeild Olís í knattspyrnu fram á JÁVERK-vellinum á Selfossi. Þetta er ellefta árið í röð sem Knattspyrnudeild Umf. Selfoss heldur mótið sem gengur undir nafninu Olísmótið og er fyrir drengi í 5. flokki.

Mótið hefst klukkan 14 föstudaginn 7. ágúst en þá er spilað hraðmót. Að loknu hraðmótinu verður raðað í riðla fyrir laugardag og sunnudag.

Sem fyrr er gisting og matur í Vallaskóla. Morgunverður verður bæði laugardag og sunnudag í boði MS, Krás og Guðnabakarís. Maturinn kemur frá Veisluþjónustu Suðurlands. Í kvöldmat á föstudag er hakk og spaghetti, á laugardag er pasta, salat og brauð í hádegismat og pottréttur í kvöldmat. Eins verður boðið upp á kvöldhressingu föstudag og laugardag.

Öllum keppendum er boðið í sundlaugarpartý, kvöldvöku og á Skósveinana (Minions) í Selfossbíó.

Vakin er athygli á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi og Brúarhlaupi Selfoss sem fara fram á Selfossi samhliða Olísmótinu um helgina.

Góða skemmtun og hlökkum til að taka á móti ykkur á Selfossi.

 

Tags: