Öruggur sigur Selfoss á JÁVERK-vellinum

Öruggur sigur Selfoss á JÁVERK-vellinum

Kvennalið Selfoss vann góðan sigur á Fylki í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu í dag. Lokatölur á JÁVERK-vellinum urðu 1-0.

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði eina mark leiksins strax á 3. mínútu þegar hún fékk frábæra sendingu innfyrir Fylkisvörnina frá Barbáru Sól Gísladóttur. Hólmfríður setti markmann Fylkis úr jafnvægi og skoraði auðveldlega í tómt markið.

Færin urðu ekki mikið fleiri, Hólmfríður fékk besta færið á 24. mínútu en skot hennar var varið. Annars var vinnslan í Selfossliðinu mikil og góð og óhætt að segja að um sannkallaðan liðssigur hafi verið að ræða.

Bikarmeistarar Selfoss eru með 28 stig í 3. sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir.