Pistill um meistaraflokk kvenna

Pistill um meistaraflokk kvenna

Meistaraflokkur kvenna á Selfossi var stofnaður haustið 2008. Margar „eldri“ kempur mættu á stofnfund ásamt yngri stelpum og þeim sem voru að stíga upp úr 2. flokki. Æfingarnar byrjuðu hjá þeim Guðjóni Hálfdáns og Gumma Sigmars, sem einmitt var búinn að vera þjálfa kjarna liðsins í mörg ár á undan.

Í janúar 2009 var svo nýr þjálfari kynntur til sögunnar, Halldór „Hitler“ Björnsson. Við tóku brútal hlaupaæfingar ásamt lyftingum og tilheyrandi. Maðurinn kom okkur í gott stand fyrir fyrsta sumarið okkar í 1. deild kvenna. Við settum okkur markmið fyrir sumarið og náðum þeim og gott betur. Við komum okkur sjálfum á óvart og stóðum okkur vel fyrsta sumarið. Úrslitakeppnin þetta sumarið var með því sniði að fjögur efstu liðin úr hvorum riðli komust áfram í úrslitakeppnina. Við enduðum í 3. sæti í okkar riðli og mættum Haukum í 8-liða úrslitum. Heimaleiknum töpuðum við 1:2 og tveimur dögum seinna mættust liðin aftur á Ásvöllum. Þar varð grátlegt 3:3 jafntefli staðreynd en jöfnunarmark Hauka kom á síðustu sekúndum leiksins og sumarið því búið hjá okkur Selfosskonum.

Eftir tímabilið tilkynnti Dóri okkur að hann myndi ekki halda áfram með liðið. Metnaður stjórnarinnar og Selfossliðsins var mikill og farið var í að finna reyndann og góðann þjálfara. Að lokum tókst það og Helena Ólafsdóttir tók við liðinu.

Æfingar hófust í lok október 2009. Helena kom inn með nýjar æfingar og áherslur. Til að mynda fórum við til Reykjavíkur einhver 8-10 skipti í Cross-Fit þjálfun í Sporthúsinu. Við æfðum eins og vitleysingjar yfir veturinn og vorum með háleit markmið. Stefnt var á úrvalsdeildarsæti. Sumarið 2010 var virkilega gott og byrjaði mjög vel. Við unnum leikina okkar stórt og vorum líklegar til alls. Unnum 13 leiki og töpuðum 1 gegn sterku liði ÍBV. Úrslitakeppnin var þannig að efstu tvö lið úr hvorum riðli spiluðu til úrslita. Við lönduðum 2. sæti okkar riðils og mættum Þrótti R. í undanúrslitum. Fyrri leikurinn, sem fór fram heima á teppinu, var jafn og endaði 1:1. Seinni leikurinn fór fram á Valbjarnavelli og má með sanni segja að sá leikur hafi verið mestu vonbrigði sem undirrituð hefur upplifað. Leikurinn var í járnum allan tímann. Þegar 15-20 mínútur voru eftir og staðan 2:1 Þrótti í vil, var fyrirliða Þróttar vikið af velli og Selfossi dæmd vítaspyrna. Við þurfum ekkert að ræða þá vítaspyrnu frekar en Þróttur steig svo upp og skoraði þriðja markið og þar með var úrvalsdeildarsætið þeirra. Eftir frábært sumar sem endaði ekki svo frábærlega vorum við staðráðnar í því að okkur tækist þetta næst! Allt er þá þrennt er ekki satt?

Vorið 2011 unnum við Lengjubikar C-deildar með 1:0 sigri á Keflavík og sumarið 2011 stýrði Björn Kristinn (Bubbi) Selfossliðinu upp í úrvalsdeild en það var ekki auðvelt verk. Við áttum í ströggli allt sumarið, meiðsli og þunnur hópur var kannski það sem gerði okkur oft erfitt fyrir. Við unnum gríðarlega mikilvægan leik á Selfossvelli gegn sterku liði Hauka um miðjan júní og gerðum jafntefli við Fjölni, sem nartaði alltaf í hælana á 2. sæti riðilsins, í lok sumars. Við stóðum að lokum uppi sem sigurvegarar B-riðils og mættum liði Keflavíkur í undanúrslitum. Fyrri leikurinn fór fram í Keflavík þar sem við töpuðum 3:2 og vonin var ekki mikil. Þegar við mættum út í Tíbrá í seinni leiknum fann ég eitthvað á mér. Andrúmsloftið var sérstakt inni í klefanum, innst inni vissum við að okkur myndi takast þetta núna og vorum allar mjög ákveðnar og einbeittar. Um 500 manns voru mættir til þess að fylgjast með okkur. Leikurinn byrjaði og stress einkenndi fyrstu 20 mínútur leiksins hjá báðum liðum, en þegar fyrsta mark Selfoss kom þá fylltumst við af öryggi. Okkur hefði aldrei dottið í hug að við myndum vinna þennan leik svona stórt, en þennan dag gekk allt upp og úrvalsdeildarsætið var staðreynd. Okkur tókst á þremur árum að koma ungu og óreyndu liði upp í úrvalsdeild og við gerðum þetta sjálfar. Engir útlendingar voru keyptir og liðið hefur aðeins fengið örfáa leikmenn á þessum árum sem ekki komu úr Selfossi.

Með þessum pistli sendum við í meistaraflokki kvenna á Selfossi bestu áramótakveðjur og þökkum fyrir frábært fótboltaár 2011.

Takk kærlega fyrir stuðninginn. Við vonumst til að sjá sem flesta á vellinum sumarið 2012!

F.h. meistaraflokks kvenna
Þóra Margrét Ólafsdóttir, fyrirliði.