Reynsluboltarnir framlengja við Selfoss

Reynsluboltarnir framlengja við Selfoss

Tveir af reynslumestu leikmönnum karlaliðs Selfoss í knattspyrnu, Andrew James Pew og Ingi Rafn Ingibergsson, hafa framlengt samninga sína við félagið um eitt ár.

Andy kom fyrst á Selfoss sumarið 2006 en hann hefur nú leikið 149 leiki fyrir Selfoss. Þrátt fyrir að vera orðinn 36 ára gamall átti Andy líklega eitt sitt besta sumar í miðvarðarstöðunni í Inkasso-deildinni í sumar. Hann lék 21 leik fyrir Selfoss í sumar í hjarta varnarinnar og var útnefndur leikmaður ársins á lokahófi félagsins.

Ingi Rafn hefur leikið með hléum með Selfossliðinu frá árinu 2002 en hann hefur leikið 203 leiki fyrir Selfoss og skorað í þeim 33 mörk. Ingi Rafn, sem er 33 ára, leikur stöðu sóknarmanns eða sóknartengiliðs en hann spilaði 17 leiki í Inkasso-deildinni í sumar og skoraði fjögur mörk.

Að sögg Gunnars Rafns Borgþórssonar þjálfara Selfoss eru leikmennirnir liðinu mjög mikilvægir enda eru þeir báðir heimamenn og gera allt fyrir félagið sitt og eru yngri leikmönnum fyrirmyndir.

Nánar er rætt við Gunnar Rafn á vef Sunnlenska.is.

Andy (t.v.) og Ingi Rafn ásamt Gunnari þjálfara.
Ljósmynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl