Rós í hnappagat Selfyssinga

Rós í hnappagat Selfyssinga

Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu, og stuðningsmenn kvennaliðs Selfoss í Pepsi-deildinni fengu verðlaun á lokahófi KSÍ sem fram fór í höfuðstöðvum sambandsins í gær. Frá þessu var greint á vef Sunnlenska.is.

Guðmunda hlaut viðurkenningu Borgunar og KSÍ fyrir heiðarlega framkomu í Pepsi-deild kvenna, en leikmaðurinn er valinn af háttvísinefnd KSÍ.

Þá voru Selfyssingar öflugastir í stúkunni á kvennaleikjum í sumar, og til fyrirmyndar í stuðningi sínum, og voru því valdir stuðningsmenn ársins í Pepsi-deild kvenna en valnefnd á vegum Ölgerðarinnar og KSÍ sá um valið.

Nánari upplýsingar eru á vef KSÍ.

Fyrr í haust greindi Sunnlenska.is einnig frá því að Blake Stockton, miðvörður Selfossliðsins, var valin í lið ársins í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu. Stockton var frábær í vörninni hjá Selfyssingum í sumar, sérstaklega þegar leið á tímabilið auk þess sem hún skoraði nokkur mikilvæg mörk.

Myndin er frá verðlaunaafhendingu 2013.
Ljósmynd: Myndasafn KSÍ