Sætur sigur í Breiðholtinu

Sætur sigur í Breiðholtinu

Tvö mörk í uppbótartíma tryggðu Selfyssingum sætan útisigur á ÍR í Inkasso-deildinni í knattspyrnu á laugardag. Selfoss sigraði 1-3.

ÍR-ingar voru sterkari í fyrri hálfleiknum og komust yfir strax á 9. mínútu. Staðan var 1-0 allt þar til á 67. mínútu að Elvar Ingi Vignisson jafnaði metin fyrir Selfoss.

Lokakaflinn var æsispennandi þar sem bæði lið fengu færi. Það var þó ekki fyrr en á 2. mínútu uppbótartíma að Andy Pew kom boltanum í netið með viðkomu í Svavari Berg Jóhannssyni. ÍR fékk hornspyrnu í næstu sókn og fór með allan sinn mannskap inn í teig en þeir misstu boltann og Pachu hljóp upp allan völlinn með knöttinn og renndi honum í tómt markið.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Að loknum leik eru Selfyssingar í 5. sæti deildarinnar með 18 stig. Næsti leikur er á heimavelli gegn Þór frá Akureyri laugardaginn 22. júlí klukkan 14:00.

Elvar Ingi skoraði jöfnunarmark Selfyssinga.
Ljósmynd: Umf. Selfoss