Saga knattspyrnunnar á Selfossvelli

Saga knattspyrnunnar á Selfossvelli

Laugardaginn 11. október voru settar upp átta stórar ljósmyndir á stúkuna Selfossvelli. Þessar myndir sýna nokkra merka áfanga í sögu fótboltans á Selfossi, bikarmeistarar kvenna 2019, Íslandsmeistarar í þriðju deild 1966, Íslandsmeistarar í þriðja flokki kvenna 2010, 1. deildarmeistarar karla 2009, kvennaliðið 2011 og Íslandsmeistarar karla í 2. flokki 1967. Svo eru tvær nýjar myndir af tæplega 200 stelpum og strákum í 6. og 7. flokki, sem ramma inn söguna.

Í kaffihófi sem var haldið af þessu tilefni sagði Björn Ingi Gíslason heiðursfélagi knattspyrnudeildarinnar frá því þegar Guðmundur Guðmundsson hóf störf sem þjálfari á Selfossi árið 1965.

Guðjón Skúlason sem var fyrirliði Íslandsmeistara 2. flokks 1967 sagði nokkrar sögur af Guðmundi þjálfara (hann hafði viðurnefnið Guðmundur lakkrís því hann vildi alltaf borða lakkrís þegar hann horfði á leikinn af hliðarlínunni), m.a. að hann lét menn bursta skóna sína fyrir leik og um leið hugsa hvernig þeir ættu að koma undirbúnir til leiks og með kröftugt hugarfar.

Hermann Ólafsson, sem var formaður knattspyrnudeildarinnar 2005-2008, rifjaði upp þegar hann bað Björn Inga rakara að verða formann afmælisnefndar vegna 50 ára afmælisins 2005. Björn Ingi vildi fá erindisbréf sem Hermann samdi, en það gleymdist að taka fram hvenær nefndin ætti að ljúka störfum. Þess vegna er afmælisnefndin enn að starfa en titlar sig nú minjaverndarnefnd.

Bæjarfulltrúarnir Arna Ýr Gunnarsdóttir og Brynhildur Jónsdóttir voru fulltrúar bjæjarstjórnar af þessu tilefni. Bræður Brynhildar og mágur, þeir Einar, Ingólfur, Sveinn og Anton hafa leikið tæplega 1.300 meistaraflokksleiki fyrir Umf. Selfoss og Gunnar faðir Örnu var formaður knattspyrnudeildarinnar 1967.

Minjaverndarnefndin þakkar Guðmundi Karli Sigurdórssyni ljósmyndara kærlega fyrir hans góðu vinnu en Guðmundur Karl hefur tekið flestar þessara ljósmynda. Einnig þökkum við Sveinbirni Mássyni og Inga Rafni frá knattspyrnudeild, Gissuri Jónssyni og Þórdísi Hansen frá Umf. Selfoss og starfsfólki Fagform á Selfossi fyrir þeirra framlag.

Við þökkum MS, JÁVERK, Íslandsbanka á Selfossi, TM umboðinu á Selfossi og Sveitarfélaginu Árborg sem hafa styrkt verkefnið af myndarskap. Það er góð tilfinning að finna hvað knattspyrnan á Selfossi nýtur mikillar velvildar, það höfum við fundið.

Minjaverndarnefnd knattspyrnudeildar,
Björn Ingi Gíslason, Bárður Guðmundarson, Einar Jónsson, Kristinn M. Bárðarson og Þorvarður Hjaltason.

Tags: