Selfoss/Hamar/Ægir bikarmeistari í 3. flokki karla

Selfoss/Hamar/Ægir bikarmeistari í 3. flokki karla

Selfoss/Hamar/Ægir tryggði sér í dag bikarmeistaratitilinn í 3. flokki karla í knattspyrnu eftir magnaðan sigur á FH í úrslitaleik í Kaplakrika. Lokatölur urðu 7-8, en úrslitin réðust í bráðabana.

Selfyssingar lentu í mótlæti strax í upphafi leiks þegar heimamenn fengu ódýra vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr.  Staðan var 1-0 í hálfleik.  Á 66. mínútu slapp Alexander Clive Vokes hægra megin inn í vítateiginn og skoraði örugglega.
Selfoss fékk dauðafæri á lokamínútunni þegar Alexander náði góðu skoti í miðjum vítateignum en góður markvörður FH varði glæsilega.

Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1-1 og því þurfti að grípa til framlengingar. Heimamenn voru sterkari í framlengingunni en Selfyssingar vörðust vel og Arnór Elí Kjartansson var með allt á hreinu í markinu. Eftir 100 mínútur var flautað af og við tók vítaspyrnukeppni.

Bæði lið skoruðu úr fyrstu fimm spyrnum sínum, næsta örugglega, og því tók við bráðabani. Í sjöundu spyrnu FH dró loksins til tíðinda þegar Arnór Elí varði glæsilega. Daði Kolviður Einarsson tók sjöundu spyrnu Selfoss og hann mætti ískaldur á punktinn og skoraði af öryggi og tryggði Selfoss/Hamri/Ægi sigurinn.