Selfyssingar kjöldregnir

Selfyssingar kjöldregnir

Selfyssingar fengu HK í heimsókn á JÁVERK-völlinn á Selfossi í gær. Eftir góðan sigur í seinasta leik áttu stuðningsmenn Selfyssinga von á spennandi og skemmtilegum leik. Sú var og raunin í fyrri hálfleik en HK skoraði eina mark hans. Í síðari hálfleik stóð ekki steinn yfir steini í leik Selfyssinga en HK-ingar gengu á lagið og kjöldrógu heimamenn. Lokastaðan 0-6 fyrir gestina og stærsta tap Selfyssinga í 22 ár staðreynd.

Að loknum 15 umferðum í 1. deild situr Selfoss í 9. sæti deildarinnar með 18 stig, einungis einu stigi frá fallsæti. Það er því við ramman reip að draga og stuðningur áhorfenda skiptir gríðarmiklu máli í næstu leikjum fyrir ungt og efnilegt lið heimamanna.

Strákarnir mæta í næsta leik botnliði Tindastóls á Sauðárkróki og fer leikurinn fram föstudaginn 15. ágúst kl. 19:00.

Fjallað var um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Gunnar þjálfari er að vonum áhyggjufullur.
Mynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tags: