Sigur gegn KV og deilum nú toppsætinu með Fylki!

Sigur gegn KV og deilum nú toppsætinu með Fylki!

Selfoss sigraði KV þegar liðin mættust í hörkuleik í Vesturbænum laugardaginn 9. júlí . Leiknum lauk með 1-2 sigri Selfoss sem þurftu heldur betur að hafa fyrir verkefninu gegn nýliðunum.
Leikurinn fór vægast sagt fjörlega af stað en Selfyssingar tóku forystuna eftir einungis tveggja mínútna leik þegar leikmaður KV setti boltann í eigið net eftir alvöru takta frá Gonzalo. KV fengu kjörið tækifæri til þess að jafna strax í næstu sókn þegar þeir fengu víti. Magnaðaður markvörður Selfyssinga, Stefán Þór, gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna glæsilega.
KV jafnaði leikinn á 34. mínútu þegar Einar Már skoraði með þrumufleyg, sláin inn, ansi snyrtilegt. 1-1 í hálfleik.
Síðari hálfleikur var kaflaskiptur og bæði lið fengu hörkufæri til þess að setja boltann í netið. Gary Martin skoraði sigurmark leiksins þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Hann slapp þá einn í gegn en lét verja frá sér, náði frákastinu og setti boltann í netið.
Liðið situr nú í 2. sæti með jafnmörg stig og Fylkir sem er í 1. sæti með betri markatölu. Næsti leikur okkar manna er á fimmtudaginn 14. júlí
gegn Gróttu á Seltjarnarnesi, sannkallaður toppslagur.