Sindri genginn til liðs við Esbjerg

Sindri genginn til liðs við Esbjerg

Sindri Pálmason, leikmaður Selfyssinga, skrifaði á sunnudag undir tveggja og hálfs árs samning við danska úrvalsdeildarliðið Esbjerg en greint var frá því á Sunnlenska.is

Sindri, sem er 17 ára gamall, fór til Esbjerg á reynslu í október og í kjölfarið sýndi danska félagið mikinn áhuga á að fá hann til liðs við sig. Selfyssingar samþykktu síðan tilboð Esbjerg í Sindra rétt fyrir jól og í framhaldinu fór hann í samningaviðræður við liðið.

„Nú taka bara við æfingar og æfingaleikir en ég byrja að æfa með liðinu á morgun (í gær), mánudag. Síðan er fyrirhuguð æfingaferð til Hollands áður en keppnistímabilið byrjar þann 1. mars,“ sagði Sindri í samtali við Sunnlenska.is en hann mun æfa með U19 ára liði félagsins.

Sindri er miðjumaður og spilaði hann þrjá leiki með Selfyssingum í 1. deildinni í sumar og var lykilmaður í 2. flokki félagsins. Hann lék sína fyrstu landsleiki í haust þegar hann var valinn í U19 ára lið Íslands og lék þrjá leiki með liðinu á móti í Svíþjóð.

Ungmennafélag Selfoss óskar Sindra allra heilla í Danaveldi og hlakkar til að fylgjast með honum í Esbjerg.

Sindri í búningi Esbjerg ásamt Niels Erik Søndergaard íþróttastjóra Esbjerg.
Mynd: Heiðdís Þorsteinsdóttir.