Stelpurnar eru óstöðvandi

Stelpurnar eru óstöðvandi

Stelpurnar okkar sóttu FH heim í Kaplakrika í gær. Það var nokkurt jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en Selfyssingar þó ívið sterkari og leiddu í hálfleik 1-0 með marki Evu Lindar Elíasdóttur. FH-ingar jöfnuðu í upphafi seinni hálfleiks en strax í kjölfarið komu tvö mörk Selfyssinga frá Guðmundu Brynju Óladóttur og Evu Lind. Eftir það sigldi Selfoss öruggum sigri í höfn og bætti Kristrún Rut Antonsdóttir fjórða marki liðsins við undir lok leiksins.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Fyrir lokaumferðina í Pepsi-deildinni eru stelpurnar í fjórða sæti með 29 stig og taka á móti Valskonum á JÁVERK-vellinum kl. 14 á laugardag. Það er frítt á völlinn á laugardag og stuðningsmenn nær og fjær hvattir til að fylla stúkuna og styðja stelpurnar.

Eva Lind skoraði tvo marka Selfyssinga.
Mynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl