Stoltir Selfyssingar þrátt fyrir ósigur

Stoltir Selfyssingar þrátt fyrir ósigur

Það voru stoltir Selfyssingar sem gengu af velli að loknum undanúrslitaleik gegn bikarmeisturum Vals í gær. Þrátt fyrir 1-2 ósigur í leiknum geta strákarnir borið höfuðið hátt enda stóðu þeir fyllilega í stjörnuprýddu Pepsi-deildarliði Vals og jöfnuðu besta árangur karlaliðs Selfoss í bikarkeppninni frá upphafi.

Selfyssingar byrjuðu leikinn afar vel, voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og áttu m.a. skot í stöng gestanna. Staðan var markalaus í hálfleik en strax í upphafi þess síðari skoruðu gestirnir beint úr aukaspyrnu og tvöfölduðu forystuna á 81. mínútu.

Það var JC Mack sem minnkaði muninn fyrir Selfoss undir lok venjulegs leiktíma með skalla eftir hornspyrnu en þrátt fyrir að gera harða hríð að marki Valsmanna náðu Selfyssingar ekki að jafna metin.

Fjöldi stuðningsmanna Selfyssinga mætti á völlinn og studdu dyggilega við bakið á strákunum svo um munaði.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is sem einnig hitaði upp fyrir leikinn með skemmtilegu viðtali við Adólf Ingva Bragason formann knattspyrnudeildar.

Þá var Gunnar Rafn Borgþórsson þjálfari liðsins í viðtali hjá Fótbolta.net eftir leikinn.

Byrjunarlið Selfyssinga í leiknum. Efri röð f.v. Giordano Pantano, Þorsteinn Daníel Þorsteinsson, Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Arnar Logi Sveinsson, Andrew James Pew og Vignir Jóhannesson. Neðri röð f.v. Richard Sæþór Sigurðsson, JC Mack, Sindri Pálmason, Pachu Martínez Gutiérrez og Teo Tirado Garcia.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Raggi Óla