Strákarnir í 2. flokki standa í ströngu

Strákarnir í 2. flokki standa í ströngu

Strákarnir í 2. flokki léku fjóra leiki á einungis 12 dögum í lok júlí. Með sanni má segja að þeir hafi farið hamförum í tveimur seinustu leikjunum.

Eftir að hafa legið á útivelli gegn toppliði Vals kom afar svekkjandi jafntefli á heimavelli gegn KA þar sem gestirnir jöfnuðu úr vítaspyrnu undir lok leiksins þá manni færri. Það voru Markús Árni Vernharðsson og Friðrik Örn Emilsson sem skoruðu mark Selfoss hvor í sínum leiknum.

Á miðvikudaginn fyrir rúmri viku síðan kjöldrógu þeir lið Leiknis/KB á Selfossvelli með sex mörkum gegn engu. Friðrik Örn skoraði tvö mörk í leiknum ásamt því að Þorkell Þráinsson, Sindri Pálmason, Magnús Ingi Einarsson og Ísak Eldjárn Tómasson skoruðu sitt markið hver.

Á sunnudag gerði þeir svo góða ferð norður á Akureyri þar sem Þórsarar voru lagðir að velli með glæsibrag 2-5. Magnús Ingi átti stórleik og skoraði fjögur mörk þar af eitt af dýrari gerðinni með frábærri hjólhestaspyrnu. Það var svo Haukur Ingi Gunnarsson sem kórónaði leik Selfyssinga með fimmta markinu í uppbótartíma.

Þjálfararnir Adolf Ingvi Bragason og Njörður Steinarsson eru að gera góða hluti með liðið sem er í samstarfi við Ægi og Árborg. Að sögn Adolfs er þetta þéttur og góður hópur sem stefnir hátt í boltanum. Mórallinn er góður í liðinu og alltaf stemming í kringum strákana. Enn fremur bætti Adolf við að markmiðið væri alltaf að lyfta mönnum hærra og taka framförum og á það jafnt við um yngri leikmenn og eldri í liðinu.

Tags: