Svekkjandi töp í Pepsi deildinni og Borgunarbikarnum

Svekkjandi töp í Pepsi deildinni og Borgunarbikarnum

Það var í nógu að snúast hjá stelpunum okkar í seinustu viku og máttu tvö af bestu liðum landsins prísa sig sæl að fara heim með sigur í farteskinu.

Á þriðjudag mættu margfaldir Íslands- og bikarmeistarar Vals á Selfossvöll og höfðu að lokum eins marks sigur að loknum framlengdum leik. Það var Hvolsvellingurinn Hlíf Hauksdóttir sem skoraði eina mark leiksins í upphafi síðari hluta framlengingar.

Á föstudag mætti topplið Pepsi deildarinnar, Stjarnan frá Garðabæ, á Selfoss. Lengstum í leiknum var jafnræði með liðunum en að lokum fór svo að Stjarnan hafði sigur með tveimur mörkum gegn engu.

Greinilegt er að Selfossliðið er á réttri leið enda átti það í fullu tré við bæði Stjörnuna og Val. Erfitt er að taka einstaka leikmenn út enda greinilegt að hver einn og einasti leikmaður gaf allt í leikina. Með sama áframhaldi, trú á eigin getu og stuðningi áhorfenda eru liðinu allir vegir færir.

Næsti leikur liðsins er á Víkingsvelli þriðjudaginn 25. júní kl. 19:15 gegn HK/Víkingi.