Tokic áfram á Selfossi!

Tokic áfram á Selfossi!

Framherjinn Hrvoje Tokić skrifaði á dögunum undir nýjan tveggja ára samning við Selfoss. Þetta eru miklar gleðifréttir en Tokic hefur stimplað sig inn sem algjör lykilmaður í liðinu síðan að hann kom til liðsins síðasta sumar.

,,Þetta var mjög auðveld ákvörðun fyrir mig. Ég er mjög ánægður hérna á Selfossi. Þetta hefur verið gott samstarf hingað til og ég er sannfærður um að það verði það áfram,“ sagði Tokic eftir undirskriftina.

Framherjinn knái er búinn að skora 8 mörk í 2. deild í sumar og er markahæstur þar.

,,Ég er nokkuð ánægður með mína frammistöðu í sumar þó svo að ég telji að ég geti gert enn betur. Ég og liðið erum að bæta okkur, ég á eftir að skora miklu fleiri mörk í sumar og við ætlum klárlega upp,“ sagði Tokic að lokum.

Jón Steindór Sveinsson, formaður knattspyrnudeildar Selfoss, fagnar undirskriftinni.

,,Við erum gífurlega ánægðir með þetta. Tokic hefur verið frábær fyrir okkur síðan að hann kom. Hann er ekki bara að gera hlutina vel innan vallar heldur einnig utan hans. Hann er frábær fyrirmynd fyrir okkar ungu leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokksbolta,“ segir Jón.

Meðfylgjandi mynd var tekin eftir undirskriftina.
Mynd/ ahm